Konfektvagn slær í gegn í miðborginni

Halldór kennir fólk að útbúa sitt eigið konfekt á aðeins …
Halldór kennir fólk að útbúa sitt eigið konfekt á aðeins 60 mínútum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bakarinn og konditorinn Halldór Kristján Sigurðsson er mörgum súkkulaðiunnandanum vel kunnugur en hann hefur starfað við konfektkennslu í hátt í tvo áratugi. Nú er hann kominn á sérlegan súkkulaðivagn og kennir konfektgerð í miðborginni. „Ég hef verið að leiðbeina fólki að búa til konfekt síðan 1997 en hef einnig kennt áhugasömum að búa til kransakökur og páskaegg. Fyrir utan þetta starfa ég á fasteignasölu og er í námi til löggildingar sem ég klára vonandi um næstu jól,“ segir Halldór sem nú er kominn á sérsmíðaðan súkkulaðivagn.

Temprun á súkkulaði vefst fyrir mörgum en Halldór kennir fólki …
Temprun á súkkulaði vefst fyrir mörgum en Halldór kennir fólki réttu handtökin. mbl.is/Kristinn Magnússon


Halldór segir vaginn góða vera kennslustofu hjá hjólum sem ber nafnið ChocolateTrailer eða Súkkulaðivagninn. „
Hugmyndin hefur verið að gerjast í nokkur ár og ég lét loks verða að því í byrjun þessa árs og lét smíða vagninn eftir mínum hugmyndum í Tékklandi. Fyrst Íslendingar hafa tekið mér svona vel í þessi 20 ár þá datt mér í hug að það væri gaman að kynna íslenskt konfekt fyrir erlendum ferðamönnum.  Ég vildi því hafa vagninn mjög sýnilegan og jafnframt færanlegan ef t.d. hópar panta námskeið og þá gæti ég mætt á staðinn með vagninn.“ Þess fyrir utan hefur Reykjavíkurborg úthlutað Halldóri plássi í miðbænum. „Viðtökur hafa verið mjög góðar og hafa bæði samlandar okkar og erlendir gestir búið til konfekt hjá mér í sumar.“

Nemendur fá Íslandsmótið með sér heim.
Nemendur fá Íslandsmótið með sér heim. mbl.is/Kristinn Magnússon


Nemendur fá að eiga Íslandsmótin

Boðið er upp á 60 mínútna konfektnámskeið þar sem allt hráefni er innifalið og gestir fara heim með molana sína ásamt konfektforminu sjálfu en molarnir eru í laginu eins og Ísland.  Þannig að áhugasamir geta því haldið áfram að búa til konfekt heima. „Ég hef einnig verið að bjóða upp á krakkanámskeið og eru þau mjög vel sótt. Ég bauð einmitt upp á námskeið fyrir börn á barnahátíðinni Kátt á Klambra og það var mjög skemmtilegt.  Þau námskeið eru eilítið frábrugðin hefðbundnum námskeiðum,  en þau eru einfaldari í sniðum til að mæta getu og væntingum yngri kynslóðarinnar.“

Fyllt konfekt er hugguleg búbót.
Fyllt konfekt er hugguleg búbót. mbl.is/Kristinn Magnússon


„Þátttakendur læra að tempra súkkulaði, það er síðan mótað í Íslandsformið.  Það er síðan fyllt með karmellu eða öðru góðgæti en lögð er áhersla að allt hráefni sé íslenskt.“

Námskeiðin verða í gangi allt árið, fólk pantar fyrir fram á heimsíðu Súkkulaðivagnsins en þar er hægt að bóka sig á námskeið, á Facebook er hægt að komast að staðsetningu hans hverju sinni.

Að lokum spurðum við Halldór hver sé algengasti misskilningurinn eða það sem fólk kann síst í konfektgerð. „Það er munurinn á ekta súkkulaði og hjúpsúkkulaði. Tempra þarf ekta súkkulaði þ.e. búa til storknunina aftur ef það er brætt.  Hjúpurinn storknar af sjálfu sér en ekki ekta súkkulaði. Ég kenni því fólki að tempra á námskeiðinu þannig að allir ættu að geta gert konfektmola án vandræða/áfallalaust eftir námskeiðið,“ segir Halldór, dísætur að vanda.

Viðtökurnar hafa verið mjög góðar að sögn Halldórs.
Viðtökurnar hafa verið mjög góðar að sögn Halldórs. mbl.is/Kristinn Magnússon
Vagninn góði var sérsmíðaður í Tékklandi.
Vagninn góði var sérsmíðaður í Tékklandi. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert