Heimsfrægur kokkur sækir innblástur á hamborgarastað

In-N-Out borgarar - svokallaðir
In-N-Out borgarar - svokallaðir "animal style" sem Chang þykja bestir. mbl.is/skjáskot

Sá stimpill virðist fylgja skyndibitastöðum að þar séu gæðin eitthvað minni eða mórallinn verri. Þessu eru þó ekki allir sammála og í nýlegu viðtali greindi meistarakokkurinn og stofnandi Momofuku-veitingastaðanna, David Chang, frá því að uppáhaldsveitingastaðurinn hans væri In-N-Out-hamborgarastaðirnir sem algengir eru á vesturströnd Bandaríkjanna.

Segir Chang að hann fái sér alla jafna hefðbundinn ostborgara þegar hann fari þangað en uppáhaldið hans sé að setjast inn og fylgjast með starfsfólkinu. Það sé mögnuð upplifun og hann reyni að gera þetta eins oft og hann geti. Hann sitji þá þar til eitthvað gerist að eigin sögn og aðspurður hvað hann eigi við með því segir hann að það geti verið jafnsmávægilegt eins og að einhver starfsmaðurinn missi eitthvað.

„Það magnaða er að oftast tekur viðkomandi ekki eftir því ef hann missir eitthvað smávægilegt eins og servíettu eða þess háttar. Innan skamms er alltaf kominn annar starfsmaður sem tekur það upp og hendir í ruslið. Ekkert vesen og ekkert bögg. Þessi staður er fullkomið dæmi um góðan anda á vinnustað og hvernig hlutirnir „eiga“ að virka. Þess vegna kem ég þangað þegar ég get og sæki mér innblástur í minn eigin rekstur," segir Chang.

In-N-Out-borgarar njóta mikilla vinsælda og meðal annars er vinsælir hjá stjörnunum í Hollywood að fara í bílalúguna þar eftir stórar verðlaunaafhendingar eins og Óskarsverðlaunin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert