Kombucha á krana í Laugu

Guðný, Eggert, Manuel og Ragna skála á nýja barnum í …
Guðný, Eggert, Manuel og Ragna skála á nýja barnum í Frú Laugu. mbl.is/Frú Lauga

Kombucha hefur notið mikilla vinsælda hérlendis síðustu mánuði en um er að ræða gerjað te sem margir vilja meina að sé allra meina bót. Eggert Skúlason á og rekur verslunina Frú Laugu í Laugalæk ásamt eiginkonu sinni Guðnýju Önnudóttur, en þar opnaði sérstakur Kombucha bar fyrir skemmstu.

„Kombucha er næringarríkur drykkur sem inniheldur mikið af góðgerlum, lágt koffínmagn, lítinn sykur og fáar hitaeiningar,“ segir Eggert en teið er framleitt af Manuel Plasencia Gutierrez og Rögnu Björk Guðbrandsdóttur hjá Kombucha Iceland. „Framleiðendur eru ekki með neinar heilsufullyrðingar en fólk sem drekkur Kombucha reglulega segir margt gott um þennan drykk og hann er mjög góður,“ segir Eggert sem sjálfur er kominn upp á lagið.

„Bragðtegundirnar okkar eru í dag engifer, krækiber, jasmín og orginal. Framleiðendurnir eru þó alltaf að prófa sig áfram með íslenskt hráefni líkt og rabarbara og rifsber en möguleikarnir eru óteljandi.“ Eggert segir viðtökurnar vera góðar og nokkuð ljóst að Kombucha sé að verða mjög vinsælt. 

Manuel ólst upp í dreifbýli á Kúbu þar sem foreldrar hans gerjuðu hefðbundna drykki úr hráefnum sem er að finna í þeirra nánasta umhverfi, s.s. hrísgrjónum og plómum svo ljóst er að drykkurinn er ekkert nýnæmi þótt vinsældir hans séu nýfundnar hérlendis. Þess má geta að stjörnurnar Lady Gaga og Gwyneth Paltrow sjást gjarnan með drykkinn í hönd auk þess sem Madonna hefur lofað Kombucha í bak og fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert