Leynitrix Nönnu: Meðferð og viðhald á steypujárni

Steypujárn er í miklu uppáhaldi hjá Nönnu.
Steypujárn er í miklu uppáhaldi hjá Nönnu. mbl.is/skjáskot

Nanna Rögvaldar er flinkari en flestir þegar kemur að matargerð og elskar fátt heitar en steypujárn. Hún gaf nýverið út bókina Pottur, panna og Nanna og þar galdrar hún fram hvern réttinn á fætur öðrum og nýtur dyggrar aðstoðar steypujárnspottanna sinn en safnið er ansi veglegt. Nanna er jafnframt sérfræðingur í meðhöndlun steypujárns og hér gefur að líta nokkur skotheld ráð sem koma beint úr bókinni sem við mælum hikstalaust með.

Sjá frétt mbl.is: Ný bók og lambabógur að hætti Nönnu

Nýjasta bók Nönnu heitir Pottur, panna og Nanna.
Nýjasta bók Nönnu heitir Pottur, panna og Nanna. mbl.is/Nanna Rögnvaldsdóttir

Meðferð og viðhald á steypujárni

Þegar þú kaupir steypujárnspott eða -pönnu er vert að hafa í huga að ef þú ferð vel með þessa gripi er ekki ólíklegt að þeir geti gengið í arf til barnanna þinna eða jafnvel barnabarnanna. Óhúðað steypujárn er eiginlega ódrepandi, fái það rétta meðferð. Emilerað steypujárn er aðeins viðkvæmara en um leið er einfaldara að halda því við. En þótt maður sé að kaupa tilvonandi erfðagrip þarf hann ekki að vera dýr.

Margir halda að það sé erfitt að þrífa og hirða um steypujárn, einkum potta og pönnur sem ekki eru emileruð. Raunin er þó önnur, það er einmitt sérlega auðvelt að þrífa járnið og viðhalda eiginleikum þess og útliti. Það þarf ekki tímafreka umhirðu til að tryggja að pottar og pönnur endist í áratugi.

Við nýjar emileraðar pönnur og potta þarf yfirleitt ekkert að gera nema þvo og þerra þau vel áður en þau eru tekin í notkun. Nýjar, óhúðaðar járnpönnur og -pottar koma nú orðið oftast olíuhúðuð (seasoned) frá verksmiðjunni en það er samt best að byrja á að bera örþunnt olíulag á járnið með eldhúspappír, þerra síðan pönnuna og stinga henni á hvolfi inn í 175°C heitan ofn í hálftíma til klukkutíma (sumir mæla reyndar með hærri hita, aðrir lægri). Olíuhúðin byggist upp smátt og smátt og þótt sumt festist við pönnuna fyrst í stað – ekki síst egg og eggjakökur – skaltu ekki örvænta, það á eftir að lagast með aukinni notkun. Sojaolía eða hörfræjaolía er sögð vera best en það má líka nota aðrar tegundir af olíu og feiti.

Olíu- og hitameðferðina er svo gott að endurtaka öðru hverju til að viðhalda olíuhúðinni eða endurnýja hana, ekki síst eftir að þurft hefur að skrúbba pönnuna þegar eitthvað hefur brunnið við eða þegar eitthvað súrt (t.d. með tómötum) hefur verið eldað því það getur eytt verndarlaginu. Og ef maður eignast gamla steypujárnspönnu sem ekki hefur hlotið rétta meðferð þarf oft að olíuhúða hana nokkrum sinnum. Þá – og aðeins þá – getur verið gott að ráðast fyrst á pönnuna með stálull og sterkum hreinsiefnum til að losna við öll óhreinindi og gamla olíu.

Já, og ryð ef það er til staðar. Ef þú rekur augun í ryðblett á pönnunni þinni þarftu ekki að óttast að hún sé ónýt. Það geta líka komið ryðblettir á emileraða potta og pönnur – á brúnirnar, sem yfirleitt eru ekki emileraðar, eða á bletti þar sem emileringin hefur flagnað af. Á sumum pottum er botninn óhúðaður og getur því ryðgað.

Ég hef fengið í hendurnar pönnur sem hafa verið þaktar brúnleitu ryðlagi en eftir að hafa skrúbbað þær vel til að fjarlægja ryðið (oft dugir að skera kartöflu í tvennt og nudda skurðfletinum vel á ryðið, oxalsýran í kartöflunni gæti nægt til að losna við það), olíuborið þær og hitað nokkrum sinnum í ofni í hálftíma til klukkutíma í senn hafa þær orðið næstum eins og nýjar. Einnig má bera olíu á pönnuna, hita hana á hellu og láta hana svo standa við vægan hita í að minnsta kosti hálftíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert