Ertu nokkuð að eyðlileggja sílikonformin?

Sílikonform eru sérlega snjöll uppfinning.
Sílikonform eru sérlega snjöll uppfinning. mbl.is/Amazon

Sílikonform eru afbragðssniðug uppfinning og í alla staði sérlega meðfærileg og frekar frábær. En það eru ekki allir sem kunna að hugsa vel um þau og hreinlega eyðileggja þau með alls kyns vitleysu.

En hér eru einfaldar og aðgengilegar aðferðir til að passa upp á sílikonformið endist að eilífu og sé alltaf upp á tíu.

Þú þarft bara tvo hluti til að þrífa sílikonform: Heitt vatn og uppþvottalög sem leysir vel upp fitu (flestar góðar uppþvottalagartegundir eru þannig).

Varðandi vatnið þá þarf það að vera eins heitt og þú þolir - með gúmíhönskum. Með þessi tvö vopn í hendi (eða eiginlega þrjú) skaltu skrúbba eins og þú getur og mögulega þarftu að endurtaka leikinn til að ná fullkomnum árangri.

Góðu fréttirnar eru þær að ef þú átt uppþvottavél þá duga þær vel þar sem flestar gerðir sílikonforma þola uppþvottavélar.

Ef það eru viðbrenndar leifar í formunum sem þú nærð ekki af skaltu setja þær aftur í ofninn á 200 gráður og hita í 10 mínútur. Síðan skaltu leggja formið í bleyti í sjóðandi heitt vatn. Þetta ætti að tryggja árangur.

En ef ekki og formið er ennþá til háborinnar skammar skaltu grípa leyniefnið og það er matarsódi. Búðu til þykkt gums og leggðu á fitugu blettina. Láttu gumsið þorna og þvoðu það burt með heitu vatni og uppþvottalegi.

En forðastu umfram allt að skrúbba með einhverju sem getur rifið upp formið eða eyðilagt það. Bara alls ekki!

Og besta ráðið til að forðast svona vesen? Hættu að smyrja formið. Þú þarft þess ekki og það bakar bara vandræði - bókstaflega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert