Súkkulaðismákökur með súkkulaði og meira súkkulaði

Hvern langar ekki í tvöfalda súkkulaðismáköku og ískalda mjólk núna?
Hvern langar ekki í tvöfalda súkkulaðismáköku og ískalda mjólk núna? mbl.is/Árni Sæberg

Orri Huginn Ágústsson, leikari og listamaður í eldhúsinu, skellti í þessar súkkulaðibombur fyrir Matarvefinn. 

„Ég hef vanið mig á að vigta hráefni í bakstur. Það er mun áreiðanlegra, enda getur verið stórkostlegur munur á því hversu mikið hveiti er í einum bolla eða allt frá 110 upp í 170 grömm! Ég mæli með vigtun en hef líka skráð magn í rúmmáli þar sem það á við. Í þessar kökur nota ég bæði súkkulaðidropa sem eru gerðir til að halda lögun sinni við bakstur og hefðbundið súkkulaði sem bráðnar við bakstur, þetta gefur ólíka áferð eftir bakstur og er frábært fyrir súkkulaðiunnendur,“ segir Orri og við getum vottað að þessar kökur eru virkilega góðar.

„Kökurnar geymast í lokuðu íláti í nokkra daga en einnig er hægt að geyma deigið óbakað í kæli í 2 daga. Það sem ég geri er að vefja deigið í plastfilmu og forma eins konar drumb úr því. Þetta set ég í frysti og sker svo bara nokkrar kökur í senn af drumbinum til baksturs. Þetta geymist vel í frysti í a.m.k. mánuð. Það er óhætt að baka kökurnar beint úr frosti.

Súkkulaðismákökur með súkkulaði og meira súkkulaði

fyrir um 20 kökur

180 g eða 1,5 bolli hveiti
50 g eða 1/2 bolli kakóduft
2,5 g eða 1/2 tsk. matarsódi
3 g eða 1/2 tsk. salt
100 g eða 1/2 bolli púðursykur
100 g eða tæplega 1/2 bolli sykur
20 g eða 1 msk. gullið síróp
170 g smjör, við stofuhita
1 egg
100 g eða 2/3 bolli 56% súkkulaði, skorið í um 1 sm teninga, má nota suðusúkkulaði
100 g eða tæplega 1/2 bolli súkkulaðidropar

Setjið hveitið í stóra skál. Sigtið kakóduftið og matarsódann út í, bætið því næst við salti og hrærið saman, setjið til hliðar. Setjið smjörið í hrærivélarskál og þeytið mjög vel (með k-inu). Bætið púðursykri, sykri og sírópi út í og þeytið í örfáar mínútur, þar til ljóst og létt. Skafið niður með hliðunum á skálinni ef þarf og bætið egginu út í. Þeytið saman á lágri stillingu í skamma stund, kannski hálfa mínútu.

Bætið þurrefnunum saman við í 2-3 skömmtum, hrærið varlega saman eftir hvern skammt. Skafið vel með hliðum og botni skálarinnar svo allt blandist vel saman. Hrærið súkkulaðið saman við og kælið deigið í um hálfa klukkustund.

Hitið ofninn í 160° (sami hiti á blæstri). Setjið bökunarpappír á 2 bökunarplötur. Takið vel kúfaða matskeið í einu af deiginu og setjið á plöturnar. Ef baka á 2 plötur í einu er best að hafa aðra plötuna í efri hluta ofnsins og hina í neðri hlutanum og víxla þeim þegar baksturinn er hálfnaður.

Bakið í um 8 mínútur á blæstri, um 10 mínútur í hefðbundnum ofni. Þar sem deigið er dökkt getur verið erfitt að sjá hvenær kökurnar eru bakaðar, en þær ættu þó að vera farnar að stífna upp við kantinn. Kælið aðeins á plötunni við stofuhita. Færið kökurnar því næst á kæligrind og leyfið að ná stofuhita áður en þær eru bornar fram.

Orri Huginn er listakokkur og elskar súkkulaði.
Orri Huginn er listakokkur og elskar súkkulaði. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert