Canneloni spínatlasagna sem tryllir

Hildigunnur elskar ítalskan mat og góða tónlist.
Hildigunnur elskar ítalskan mat og góða tónlist. Ófeigur Lýðsson
Hildigunnur Einarsdóttir er fyrst og fremst sjálfstætt starfandi söngkona og kórstjóri en hefur stórkostlega eldhúshæfileika sem heilla ekki síður en röddin. „Ég hef gífurlega ástríðu fyrir góðum mat og fæ útrás fyrir hana við að elda hádegismat fyrir starfsmenn Gagarín og Tvíhorfs á milli þess sem ég syng og stjórna kórum og sinni svo auðvitað blessuðum börnunum mínum tveimur,“ segir Hildigunnur syngjandi kát með sjarmann í botni. 
Spurð um uppáhaldsdrykki svarar hún „KAFFI...og rauðvín...og sódavatn. Á mínu heimili er einnig mikið sport að blanda sódavatni við hvers kyns safa og bæta þá við viðskeytinu -schorle. Eplaschorle, gojischorle, hvítvínsschorle....“ Að því sögðu blikkuðum við söngkonuna sísætu og fengum þessa dýrindisuppskrift. Þeir sem vilja fylgjast með eldhúsafrekun Hildigunnar geta elt myllumerkið #hildigunnurmatráður
Huggulegheit að hætti Hildigunnar.
Huggulegheit að hætti Hildigunnar. Ófeigur Lýðsson

Canneloni spínatlasagna

Tómatsósa:
2 msk. ólífuolía
1 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
1/2 rauður chilli
2 msk. balsamedik
1 msk. hunang
2 dósir saxaðir tómatar í dós
1 lítil dós tómatpúrra
1/2 dl vatn
1 msk. grænmetiskraftur (himneskt)
2 msk. oregano
2 msk. marjoram
salt og pipar eftir smekk
3 msk. sítrónusafi
fínt rifinn börkur af sítrónu

Fylling:
3 msk. ólífuolía
1/2 stór kúrbítur (eða einn lítill)
lítill spergilkálshaus
1/2 rauður chilli
2 hvítlauksrif
200 g spínat
200 g rjómaostur
1 stór dós kotasæla
salt, pipar, múskat, sítrónubörkur.

Einnig:
Lasagnaplötur
1 pakki rifinn ostur
oregano
pipar

1.

Saxið lauk, hvítlauk og chilipipar og steikið við vægan hita í olíunni í nokkrar mínútur. Bætið við hunangi og balsamediki og leyfið að sjóða örlítið niður. Tómötum og tómatpúrru bætt við sem og kryddunum, vatni og grænmetiskrafti. Hita að suðu og leyft að malla í amk 30 mín. Þvi lengur sem sósan fær að malla, því magnaðra bragð. Að lokum er gott að bæta við sítrónusafa og berki. Sumum finnst betra að mauka sósuna með töfrasprota.

(til að einfalda lífið er líka hægt að kaupa tilbúna tómatsósu - hér er enginn að dæma!)

2.

Skerið kúrbítinn í fremur þunnar sneiðar, brokkolí í litla stilka og hvítlaukinn og chillipiparinn smátt. Hitið olíuna í potti og leyfið hvítlauknum og chillipiparnum að hitna um leið. Bætið kúrbít og brokkolíi við og leyfið að steikjast vel og brúnast örlitið. Bætið spínatinu við og piprið og saltið vel og hrærið vel saman og leyfið smá hita að komast í spínatið. Takið pottinn af hellunni og bætið rjómaosti og kostasælu við, sem og 1-2 tsk. af múskati. Hér er líka gott að bæta við smá sítrónuberki.

3.

Setjið tómatsósu í botninn, fyllingu þar ofan á og lasagnaplötur þar til fatið er fullt. Best finnst mér að hafa fyllingu efst og setja nóg af rifnum mozzarellaosti og oregano.

Bakist í ofni í 30-40 mínútur við 200 gráður. 

Salat:

Blanda af spínati og klettakáli
1/2 mangó
1 epli
1 bökuð rauðrófa eða fersk rifin
Safi og börkur af einni lime

Dressing:

2 msk. hunang
2 msk. balsamedik
2 msk. dijonsinnep
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar

Öllu blandað saman og í lokin 2-3 msk. ólífuolíu bætt við.

Brauð:

Þegar ég á brauð í eldri kantinum finnst mér gott að setja það á ofnplötu, setja vel af góðri ólífuolíu, salti, pipar og þurrkuðum rósmarín yfir og baka í ofni í 10 mínútur.

Girnilegt gúmmelaðið sem vel má frysta.
Girnilegt gúmmelaðið sem vel má frysta. Ófeigur Lýðsson
Fallegt og gott fyrir kroppinn.
Fallegt og gott fyrir kroppinn. Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert