Sous-vidað lamb læknisins

mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
Það er eitthvað við mömmu-sósur sem er svo gott. Þessi kemur beint frá Lækninum í eldhúsinu og ef hann gæðavottar þessa sósu þá hlýtur hún að vera í lagi. Að sjálfsögðu sous-vidar hann lamb með og býður upp á tvenns konar afbrigði eins og honum einum er lagið enda ekki þekktur fyrir hálfkák. 

Tvenns konar lamb sousvide með mömmusveppasósu

Það er nú ekki mikil eldamennska í þessari færslu ef frá er talin sósan sem mamma sauð upp. Við mamma beitum svipaðri aðferð við sósuna, en hennar verður alltaf aðeins betri en mín. Hún beitir einhverjum brögðum sem ég bý ekki yfir.

Fyrir átta

  • 1 kg lambasirloin, forkryddað
  • 1 kg lambasirloin, „Bragð frá Ítalíu"

Meðlæti

  • 1 kg kartöflur
  • 2 sætar kartöflur
  • 1 heill hvítlaukur
  • 4 msk. jómfrúarolía
  • salt og pipar
  • Salat
  • blandað grænt salat
  • tómatar
  • sugarsnap-baunir
  • sætar rauðar papríkur
  • fetaostur
  • salatsósa að eigin vali (heimagerð að sjálfsögðu)

Fyrir sósuna

  • 250 gr. sveppir
  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 70 gr. smjör
  • 150 ml rjómi
  • 200 ml vatn
  • 1 lambateningur
  • vökvi af kjötinu
  • salt og pipar eftir smekk

Það var nú engin vinna fólgin í því að undirbúa kjötið. Lét það ná herbergishita áður en ég setti það í vatnsbaðið. Lét vatnsbaðið vera í 56 gráðum. Setti plastfilmu yfir bara til að halda varmanum betur. Svo var bara að láta kjötið eldast í tvær klukkustundir. Þá er það fullkomlega eldað í gegn. Á meðan gerði mamma sósuna – ég gerði lítið annað en að smakka til og njóta!

Sósan er gerð nokkurn veginn svona:

  1. Byrjið á að skera laukinn og hvítlaukinn smátt, sveppina gróft.
  2. Bræðið smjörið í pottinum og steikið sveppina, laukinn og hvítlaukinn við lágan hita. Ekkert á að brenna, bara hægt og bítandi að brúnast.
  3. Þegar eldhúsið er orðið fullt af dásamlegum sveppailm og hnetukeim, er rjómanum, vatninu og teningum hellt saman við og soðið upp, sjóðið síðan niður þangað til að sósan er af þeirri þykkt sem þið óskið.
  4. Þegar lambið er tilbúið er öllu soði af því hellt saman við sósuna – við notuðum bara vökvann af forkryddaða lambinu. Hrærið vel saman við og smakkið til með salti og pipar.
  5. Sætið með sultu ef sá gállinn er á ykkur.
  6. Kartöflurnar voru skornar niður, velt upp úr olíu og smátt skornum hvítlauk og bakaðar í ofni í tæplega klukkustund. Auðvelt!
  7. Kjötið er síðan brúnað að utan. Það má að sjálfsögðu gera á pönnu, en í sveitinni grillum við alltaf.
Kjötið er brúnað að utan en Ragnar kýs að gera …
Kjötið er brúnað að utan en Ragnar kýs að gera það á grillinu. mbl.is/Ragnar Freyr Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert