Hvað má borða mikinn sykur á dag?

Lukka í Happ er mikil baráttukona í betrumbótum á matarræði …
Lukka í Happ er mikil baráttukona í betrumbótum á matarræði landsmanna. mbl.is/Árni Sæberg

Í bókinni Máttur matarins eftir Unnur Guðrún Pálsdóttir betur þekkt sem Lukka á Happ og Þórunn Steinsdóttir er að finna eftirfarandi staðreyndir um sykur.

„Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni er hóflegt magn af sykri 6-9 tsk á dag. Til að gefa hugmynd um hve mikið þetta er, þá inniheldur 500 ml kókflaska rúmlega 13 teskeiðar af sykri. Sá sem drekkur hálfan lítra af kóki á dag hvern einasta dag vikunnar allan ársins hring fær með gosdrykkjunni einni saman rúmlega eitt og hálft kíló af sykri á mánuði eða rúmlega 19 kíló á ári.“

Unnur Guðrún yfirleitt kölluð Lukka á Happ er ötul talskona hollari lífstíls. Matarvefurinn spurði hana út í sykurneyslu og það stóð ekki á svörunum. „Allir vita að það er mikill sykur í gosdrykkjum en hitt er annað að sykur er víða falinn í vörum sem okkur er talin trú um að séu hollar. Sem dæmi má nefna að í 500 g af skyri með ávaxtabragði eru um 8-9 tsk af sykri. Í einni 170 g dós af skyri með ávaxtabragði er því nærri hálfur dagskammtur af hóflegu magni sykurs.“

Hvað er það versta við nútímamataræði?

„Svarið við þessari spurningu er að sjálfsögðu afar flókið og margir eru líklega ósammála um hvert það er. Augljósasta svarið er þó líklega sykraðir drykkir eða sykurneysla almennt. Neysla sykraðra drykkja er gríðarlega mikil á Vesturlöndum, hvort sem um er að ræða gosdrykki, ávaxtasafa, sykraða mjólkur- drykki eða sykraða áfenga drykki, og benda rannsóknir til þess að rekja megi á hverju ári tæplega 200.000 dauðsföll til neyslu sykraðra gosdrykkja. Stærstur hluti dauðsfallanna er vegna sykursýki, síðan hjartasjúkdóma og þar á eftir krabbameins. Rauði þráðurinn er þó yfirleitt offita sem eykur líkurnar á myndun þessara þriggja sjúkdóma til muna. Hér á landi er hlutfall þeirra sem glíma við offitu um 20%, talsvert hærra en á hinum Norðurlöndunum, þar sem hlutfallið er í kringum 12%. Þetta hlýtur að teljast sláandi.“

Sykur, eins og við þekkjum hann, þessi hvíti sem við stráðum yfirleitt yfir pönnukökurnar okkar þegar við vorum yngri (og gerum líklega mörg hver enn) er ein af þeim fæðutegundum sem innihalda nánast ekki neitt sem líkaminn þarfnast til að starfa, nema hitaeiningar, sem við fáum flest of mikið af. Sykur inniheldur ekki prótín, ekki fitusýrur, ekki trefjar, ekki vítamín og engin steinefni. Hann inniheldur sem sagt einungis hitaeiningar en enga næringu. Þarna erum við því komin að rót vandans í nútímasamfélagi, þ.e.a.s. mettun án næringar. “

„Það er ekki er auðvelt að sneiða hjá sykri, því hann er nánast allstaðar, í mjólkurafurðum, brauði, áleggi og svo auðvitað þessu hefðbundna, kexi, sælgæti og drykkjarvörum. En besta leiðin til að sneiða sem mest hjá sykri er að neyta óunninnar fæðu, búa brauðin til sjálf eða passa að kaupa þau í vönduðum bakaríum sem leggja mikið upp úr góðu hráefni, saxa jarðarber út í AB mjólkina í stað þess að kaupa hana með jarðarberjabragði o.s.frv,“ segir Lukka. Því minna sem maturinn er unnin því meiri stjórn hafa neytendur á hráefninu.
Sjá frétt mbl.is: Uppáhalds lambasalat Lukku
Lukka leggur mikið upp úr hollum mat þar sem hráefnið …
Lukka leggur mikið upp úr hollum mat þar sem hráefnið færð að njóta sín og er lítið unnið. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert