Drottningin með umferðarljósakerfi í borðstofunni

Elísabet Bretlandsdrottning er ágætis yfirmaður að sögn fyrrum bryta hennar.
Elísabet Bretlandsdrottning er ágætis yfirmaður að sögn fyrrum bryta hennar. Chris Radburn

Það er ekkert grín að vera þjóðhöfðingi sem þarf að taka á móti gestum í gríð og erg, oftar en ekki gefa þeim að borða, hlusta á ríkisleyndarmál, halda uppi hágæðastandard og gera það án þess að bregða svip.

Sem betur fer hefur drottiningin yfir að ráða heilum her þrautþjálfaðs starfsfólks og það er alltaf gaman þegar það ljóstrar upp leyndarmálunum á bak við glæsilegt hirðlífið.

Richard Kerrigan, fyrrverandi bryti í Buckingham-höll, var viðmælandi í vinsælum morgunþætti í Ástralíu þar sem hann lýsti lífi starfsfólksins. Iðulega séu haldin matarboð þar sem gestafjöldinn er allt upp í 180 manns. Þjónarnir eru tæplega hundrað talsins og eru reglurnar mjög skýrar. Þjónustustigð er með því hæsta sem gerist og öll vinnubrögð til fyrirmyndar.

Þjónustufólkinu er stýrt með nokkurs konar umferðarljósum þar sem það má koma inn í salinn ef ljósið er grænt en rautt ljós þýðir að verið er að ræða ríkisleyndarmál (eða þá má starfsfólkið ekki koma inn). Ekki fylgdi sögunni hver stýrir téðum umferðarljósum en varla er það drottningin sjálf.

Kerrigan sagði jafnframt að konungsfjölskyldan væri afskaplega indæl og alþýðleg og það skrítnasta sem hann upplifði í starfi sínu fyrir hana var þegar hann var beðinn um að fara með hitabrúsa milli hæða. Á miðri leiðinni áttaði hann sig á því að brúsinn innihélt súpu drottningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert