Tíu atriði sem auðvelda fólki að velja rétt vín

Skál í góðu og vel geymdu víni! Það geymist jú …
Skál í góðu og vel geymdu víni! Það geymist jú auðvitað best í maga! mbl.is/TM

Að velja vín getur vafist fyrir mörgum sem er kannski ekki skrítið í ljósi þess að tegundirnar, þrúgurnar og árgangarnir skipta þúsundum. Það er því nauðsynlegt að kunna nokkrar grundvallarreglur þegar kemur að vínvali og þessar tíu reglur tryggja að þú sért í nokkuð góðum málum.

Þessi ráð koma úr bókinni Litla vínbókin - séfræðingur á 24 tímum sem kom út á dögunum. Við fullyrðum að þetta er með gáfulegri fjárfestingum fyrir þá sem vilja vita eitthvað um vín enda er fullyrt í bókinni að eftir lestur hennar sé lesandinn orðinn vínsérfræðingur. Höfundur hennar, Jancis Robinson, er af mörgum talinn einn virtasti víngagnrýnandi heims og það segir nú ýmislegt.

Tíu atriði sem auðvelda fólki að velja rétt vín.

1. Forðist flöskur sem hafa verið geymdar í of mikilli birtu (þið viljið ekki taka þær sem eru í búðarglugganum) eða of nálægt hita. Þetta getur rýrt bragð og ferskleika vínsins.

2. Leitið að víni sem var tappað á flöskur eins nálægt ræktunarstað þrúgnanna og kostur er. Allar víntegundir verða að vera merktar með heimilisfangi, eða að minnsta kosti póstnúmeri átöppunaraðilans ef hann er ekki hinn sami og vínframleiðandinn. Sniðgangið til dæmis nýsjálenskt vín sem var tappað á í Bretlandi. Það færist í aukana að vín sé flutt í stórum einingum um heiminn, sem má vera að sé umhverfisvænna fyrir ódýr vín en alvöruvínframleiðendur vilja tappa sínu víni sjálfir. Leitið að „Mis en bouteille au domaine/cháteau“ á frönskum vínum.

3. Ef flaskan er með korktappa, veljið þær sem hafa verið geymdar láréttar, þannig helst korkurinn rakur og súrefnið kemst ekki inn.

4. Gáið hve hátt vínið nær upp í flöskuhálsinn. Það á ekki að vera meira en tveggja eða þriggja sentimetra borð á uppréttri flösku, annars er of mikið súrefni í snertingu við vínið.

5. Í fínna víni getur verið afar erfitt að muna hvaða árgangur er bestur í hverju héraði. Það má stytta sér leið með reglunni um margfeldi af fimm: Allir árgangar síðan 1985 sem hægt er að deila í með fimm (enda á fimm eða núll) hafa verið býsna góðir.

6. Forðist bakhliðarmiða sem eru með of nákvæmum upplýsingum um bragðið af víninu og þar sem mælt er með alls kyns mat sem passar við vínið. Það getur verið vísbending um ýkta markaðssetningu. Mér finnst persónulega betra að þarna séu upplýsingar um hvernig vínið var búið til.

7. Notið snjallsímann til að kanna einkunnir og umsagnir frá gagnrýnendum og öðru áhugafólki um vín.

8. Á ferð erlendis má heimsækja sjálfstæða vínsala og biðja um ráðleggingar. Ef þeir gefa ekki góð ráð, farið þá annað þar til þið hittið á sala að ykkar skapi.

9. Í ódýrum hvítvínum og ekki síst rósavínum er best að velja alltaf sem nýjastan árgang.

10. Erlendis má stundum sjá vín á tilboði. Þá er gott að spyrja hvers vegna það er. Stundum er það vegna þess að flöskurnar eru í slæmu ásigkomulagi eða að vínið er orðið of gamalt.

Það er gott að vita hvernig velja skal vín.
Það er gott að vita hvernig velja skal vín.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert