Svona heldurðu jólatrénu á lífi

Í Heiðmörk er byrjað að höggva niður tré.
Í Heiðmörk er byrjað að höggva niður tré. mbl.is/RAX

Það er töluverð fjárfesting sem liggur að baki jólatré, svo að ekki sé minnst á mikilvægi þess í hefðbundnum hátíðarhöldum. Það er því alltaf frekar svekkjandi þegar tréð gefur upp öndina áður en jólin svo mikið sem hefjast en hér eru skotheldar aðferðir til að tréð standi sem lengst í fullri reisn.

Við heyrðum í Steinunni Reynisdóttur, garðyrkjufræðingi hjá Garðheimum, og bárum undir hana helstu húsráðin sem við kunnum. Steinunn tók vissulega undir mikilvægi þess að hugsa vel um tréð enda væri það lykilatriði til þess að tryggja langlífi þess og góða heilsu. Hér koma nokkur vel valin ráð úr viskubrunni Steinunnar:

1. Ef tréð hefur staðið úti í miklu frosti er gott að taka tréð inn í þvottahús eða á baðherbergið og skola af því. Það hjálpar trénu að aðlagast hitabreytingunum og skolar burt óvæntum gestum sem gætu leynst í trénu.

2. Sagið neðan af trénu og tálgið börkinn upp sirka sentrimetra. Þetta eykur getu trésins til að drekka vatn.

3. Ef jólatrésfóturinn þolir sjóðandi vatn skal setja tréð beint í sjóðandi vatn. Ef ekki skal láta tréð ofan í pott með sjóðandi vatni. Þetta er gert til þess að bræða burt efni sem oft eru sett á tré, eins og harpix, sem ætlað er að verja tréð eftir það er hoggið. Mikilvægt er að ná efninu af til að tréð geti drukkið. Þetta á sérstaklega við um rauðgreni.

4. Vökvið tréð eins og vitleysingar. Fyrstu dagana fyllir tréð sig af vatni og getur drukkið gríðarlegt magn af vatni. Hér skiptir gríðarlega miklu málið að alltaf sé nóg af vatni. Má eiginlega færa sannfærandi rök fyrir því að þetta skipti öllu máli upp á líftíma trésins.

5. Vökvið tréð reglulega og skreytið það fallega. Illa skreytt tré eiga það til að drepast fyrr. (djók)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert