Þetta þarftu að vita áður en þú hannar eldhúsið þitt

Smekklegt og fallegt eldhús frá HTH. Bleiki veggurinn og efnisvalið …
Smekklegt og fallegt eldhús frá HTH. Bleiki veggurinn og efnisvalið í innréttingum og tækjum, er að tala saman. mbl.is/hth-kitchen.com

Eldhúsið, staðurinn á heimilinu þar sem við eyðum stundum með fjölskyldu og vinum. Hér eru nokkur vel valin atriði sem gott er að hafa bak við eyrað ef þú stendur í breytingum á eldhúsinu þínu. Nú vitnum við sérstaklega í þau eldhús sem eru með samliggjandi borðstofu eða stofu – þar sem flæðið þarf að vera það besta.

Alrýmið þarf sitt pláss
Virtu fyrir þér rýmið þar sem eldhús og stofa eiga að liggja saman. Er pláss fyrir þær athafnir sem fjölskyldan þín þarfnast? Eldhús-stofa, inniheldur oftar en ekki bara eldhús og borðstofu, líka vinnusvæði, leikrými eða jafnvel sjónvarpsstofu. Ef um slíkt ræðir, þá er mikilvægt að hafa nóg af skúffum og hillum, eins gólf- og borðpláss. Dagblöð, leikföng, bækur og tölva eru mögulega allt hlutir sem enda í alrýminu hvort sem þér líkar það betur eða verr.

Skiptu upp í svæði og gönguleiðir
Hugsaðu eldhúsið og samliggjandi rými í ákveðnum svæðum og gönguleiðum. Þannig kemur þú í veg fyrir að fella þig á leikföngum eða þurfa að draga inn magann til að komast einhvers staðar á milli. Veltu því fyrir þér hvort að gott sé að „fela“ svæðið þar sem vaskurinn er, svo þú og gestirnir þínir þurfi ekki að horfa á uppvaskið frá borðstofuborðinu. Eins er frábært að hafa útgengt á svalirnar eða pallinn, frá alrýminu – þannig verður auðveldara að bera matinn út og inn á góðviðrisdögum.

Veldu lýsinguna vel frá upphafi
Það er mikilvægt að velja réttu lýsinguna þegar breytingar standa yfir. Eldhús þarf að hafa gott vinnuljós og líka huggulega stemningu þar sem setið er og borðað. Veldu ljós sem blindar þig ekki, býr til truflandi skugga eða hangir of lágt. Dæmigerð mistök eru að staðsetja vinnuljós þannig að þú skyggir sjálf/ur á það á meðan þú hrærir í pottunum. Besta leiðin að góðri vinnulýsingu er að setja hana undir efri skápana. Mundu einnig eftir að hafa nóg af tenglum svo að þú þurfir ekki að bíða með að hella upp á kaffi á meðan þú ristar brauð.

Eldhúsið ætti að henta venjum þínum
Hvar hleður þú símann og hvar vinna krakkarnir heimavinnuna sína? Hvað eru yfirleitt margir í eldhúsinu á sama tíma og hvernig mat eldar þú – ættu kryddin að skera sig úr eða má geyma þau inn í skáp? Allt eru þetta spurningar sem þú þart að kunna svörin við ef þú vilt hanna eldhús sem hentar þínum venjum. Hugsaðu um þarfirnar þínar og lausnir til að koma til móts við það sem þú þarft. Það verður að vera pláss fyrir þetta allt saman án þess að eldhúsið endi sem eitt stórt kaos eftir daginn.

Fjárfestu í góðu sogi
Matur ilmar oft unaðslega, en það er ekki gott að hafa fasta matarlykt í húsinu. Fjárfestu í góðri viftu með góðri soggetu. Í 35 fermetra eldhús-alrými þarf háfurinn að vera með sogkraft fyrir rúmlega 1000 m³.

Vandaðu efnisvalið
Til að forðast of mikla hreingerningu og viðhald skaltu vanda efnisvalið í innréttingum og tækjum. Þú vilt ekki velja borðplötu sem minnir þig alltaf á þegar þú misstir rauðbeðu á bekkinn og gleymdir að þrífa strax á eftir.

Forðastu lélega hljóðvist
Slæm hljóðvist í rýminu stafar af stærð herbergisins og óheppilegu efnisvali. Það eru sérstaklega hörðu efnin eins og flísar og steypa sem magna upp hljóðið í stórum eldhúsum og þá sérstaklega þar sem lofthæðin er mikil. Þá má leysa vandann með sérstökum hljóðloftum eða smella mottum á gólfið, gardínum í gluggana og bólstruðum húsgögnum.

Öryggið umfram allt
Mikið af slysum gerast í eldhúsinu. Hvassir hnífar, sjóðandi vatn og heitar pönnur og þá oft í kringum litla krakka sem vilja ólm hjálpa til við eldamennskuna.

  • Settu barnalæsingar á þá skápa sem beittir hlutir eru geymdir.
  • Hafðu nægilegt gólfpláss til að forðast árekstra við aðra.
  • Veljir þú flísar á gólfið skaltu íhuga að þær geta verið sleipar ef það sullast vatn á þær.
  • Staðsettu ofninn ofarlega til að litlir puttar eigi ekki auðvelt með að ná upp í.

Bermúda þríhyrningur eldhússins
Ísskápur, helluborð og vaskur – þetta eru þrír mest notuðu staðirnir í eldhúsinu. Gaktu úr skugga um að þessir þrír staðir vinni vel saman, því það mun auðvelda svo margt í eldhúsinu. Passaðu fjarlægðina á milli þessara „stöðva“ en talað er um að fjarlægðin á milli þessara staða megi ekki vera undir 3,6 m – og ekki fara yfir 6,6 metra. Lengdin á milli vasks og eldavélar þykir einna mikilvægust og skal vera á bilinu 120 til 180 cm. Ef eitthvað af þessu þrennu þurfi að vera lengra frá, þá skal það vera ísskápurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert