Jólasveinahúfur í bollakökuformi

Jólasveinahúfur í bollakökuformi.
Jólasveinahúfur í bollakökuformi. mbl.is/Gotteri.is

Jólasveinahúfur eru skrautlegar og ekki er síður gaman að borða þær. Hér eru þær í bollakökuformi, en eru í raun smákökur. Það er Berglind Hreiðars á Gotter.is sem á heiðurinn að uppskriftinni sem segir að hér séu dæmigerðar súkkulaðibitasmákökur settar í bollakökuform og bakaðar þannig. Kökurnar eru því næst toppaðar með þeyttum vanillurjóma og jarðarberjahúfu sem gerir kökurnar enn hátíðlegri. 

Jólasveinahúfur í bollakökuformi

Kökur

  • 220 gr. smjör við stofuhita (plús til að smyrja með)
  • 150 gr. sykur
  • 150 gr. púðursykur
  • 2 egg
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 270 gr. hveiti
  • 1 tsk. matarsódi
  • 1/2 tsk. salt
  • 120 gr. súkkulaðidropar

Jólasveinahúfur

  • 35-40 jarðarber
  • 400 ml rjómi 
  • 1 tsk. vanillusykur
  • 2 msk. flórsykur

Aðferð:

  1. Þeytið saman smjör og báðar tegundir af sykri þar til þetta er létt og ljóst. Blandið þá eggjunum og vanilludropum saman við, þeytið áfram og skafið niður á milli. 
  2. Hrærið þurrefnunum saman í skál og blandið saman við smjörblönduna í nokkrum skömmtum, skafið niður á milli. 
  3. Vefjið að lokum súkkulaðidropunum saman við deigið, plastið það næst og kælið í að minnsta kosti klukkustund (líka í lagi að kæla yfir nótt). 
  4. Hitið ofninn á 175 gráðu og smyrjið lítil ál-bollakökuform vel að innan með smjöri (líka upp fyrir kantana). 
  5. Setjið um eina msk. af deigi í hvert hólf og bakið í 10-13 mínútur eða þar til kökurnar fara aðeins að gyllast í köntunum. 
  6. Kælið stutta stund og takið næst úr formunum og leyfið þessu að kólna alveg. Best er að snúa upp á kökurnar til að ná þeim úr eða nota lítinn beittan hníf. 
  7. Skreytið með rjóma og jarðarberjum. 

Jólasveinahúfur

  1. Skerið aðeins að ofan af jarðarberjunum og geymið þau á meðan þið þeytið rjómann. Setjið rjóma, vanillusykur og flórsykur saman í skál og þeytið þar til þetta er stífþeytt. 
  2. Setjið rjómann í sprautupoka og sprautið ofan á hverja köku, leggið næst jarðarberjahatt ofan á rjómann og sprautið síðan litlum rjómadúsk á endann á jarðarberinu. 
  3. Geymið í kæli þar til bera á kökurnar fram. 
mbl.is/Gotteri.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert