Toblerone segir skilið við Matterhorn-fjallið

Hönnunin leit fyrst dagsins ljós árið 1970.
Hönnunin leit fyrst dagsins ljós árið 1970. mbl.is/Ari Páll

Toblerone hefur verið gert að fjarlægja hið fræga Matterhorn-fjall af umbúðunum sínum eftir að hluti af framleiðslu þess var fært frá Sviss, en strangar reglur eru þar í landi um hvernig megi nota kennileiti landsins til markaðssetningar. BBC greinir frá.

Munu því umbúðir súkkulaðsins koma til með að breytast á komandi misserum, og meðal annars prýða undirskrift Theodors Tobler, annars stofnenda Toblerone.

Þá verður Matterhorn-fjallinu skipt út fyrir annan „hefðbundnari“ fjallstind, að sögn talsmanna fyrirtækisins. Sú yfirhalning virðist þó að einhverju leyti hafin ef marka má breska heimasíðu Toblerone.

Skjaldamerki Bern, höfuðborgar Sviss.
Skjaldamerki Bern, höfuðborgar Sviss. Wikipedia

Ströng lög frá 2017

Lengi hefur sælgætið verið kennt við Sviss, en það fór fyrst í almenna sölu í Bern árið 1908. Aftur á móti hefur Matterhorn-fjallið ekki prýtt pakkningarnar jafn lengi, þar sem sú hönnun leit fyrst dagsins ljós árið 1970.

Fram að því mátti finna svissneska skógarbjörninn og örn á pakkningunum, en skjaldamerki Bern er einmitt skógarbjörn. Er því ljóst að ekki yrði heldur í boði að hverfa til gömlu hönnunarinnar, í ljósi áðurnefndra laga, sem samþykkt voru árið 2017.

Bandaríski sælgætisframleiðandinn Mondelez hefur átt Toblerone frá árinu 2012. Súkkulaðið hefur hingað til verið framleitt að mestu í Sviss en stefnt er að því að færa framleiðsluna til Slóvakíu að mestu fyrir lok þessa árs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert