Íslenskur vodki valinn sá besti af GQ

Hið vinsæla tímarit GQ tók nýverið út bestu tegundir af vodka og þar lenti hinn íslenski REYKA vodki efstur á lista sem bestur í heildina, eða „best vodka - overall“. Eins og margir þekkja er Reyka vodki eimaður í Borgarnesi en framleiðslan er í höndum Þórðar Sigurðsson eimingarmeistara (e. master distiller) sem segir það bæði gaman og mikinn heiður að fá svona umfjöllun.

Framleiðsla á REYKA vodka hófst árið 2005 en síðan þá hefur drykkurinn hlotið fjölda virtra verðlauna og viðurkenninga um allan heim. „Megnið af framleiðslunni er selt erlendis en við höfum framleitt um 2 milljónir lítra á ári undanfarin ár. Vegna mikillar eftirspurnar höfum við nú bætt við nýjum eimingartækjum til að geta mætt þessari auknu eftispurn,“ segir Þórður.

Handvirkt ferli í smáum skömmtum
Þórður hefur starfað við eimingu frá stofnun Reyka og sem eimingarmeistari frá 2011. Reyka er framleitt í smáum skömmtum (e. small batch) og þar skiptir reynsla og þekking eimara miklu máli til að halda uppi gæðum og stöðlum. „Við framleiðum í kopareimingartækjum en hver suða er einstök og krefst mikillar natni og nákvæmni til að tryggja hámarksgæði. Allt er stillt með hendi og engin sjálfvirkni í ferlinu,“ segir Þórður sem segir að þar komi það til góða að vera með næmt þefskyn.

Frá vélsmíði að eimingu

Leið Þórðar að framleiðslu vodka var ekki hefðbundin: „Ég er vélsmíðameistari að mennt en hafði einnig sótt mér frekari þekkingu í efna- og eðlisfræði. Ég var nýfluttur aftur til Borgarness þegar undirbúningur að eimingu Reyka var að hefjast, þar var bent á mig sem mögulegan starfsmann og í kjölfar hófust miklar prófanir – enda er ekki nóg að geta tileinkað sér alla þá þekkingu sem starfið krefst heldur þarf nefið líka að vera næmt!“  Þórður var síðan sendur til Skotlands til þjálfunar hjá William Grant & Sons, sem framleiða Reyka, og síðan varð ekki aftur snúið að því að fram kemur í fréttatilkynningu. 

Umsögn GQ: 
Besti vodkinn, heilt yfir: Reyka

Hinn íslenski Reyka vodki er ein þessara sjaldgæfu vodkategunda sem ná að búa til fjári góða framleiðslu í smáum skömmtum, og það á viðráðanlegu verði. Hið einstaka bragð má að miklu rekja til hins náttúrulega umhverfis sem hver skammtur er eimaður í: Reyka sækir náttúrulega hreinsað vatn úr jökullindum á Íslandi, sem renna gegnum hraunbeð. Hinir sömu steinar og gera vatn svæðisins svo ótrúlega hreint eru einnig notaðir til að sía vodkað til að búa til framúrskarandi ferskan og hreinan vínanda. Hann er fremur sætur á bragð, með vott af grasi og sítrus, en í bakgrunni má finna keim af svörtum pipar sem skapar ákveðinn hita. Okkur líkar við hann fyrir í raun öll tækifæri – frá því að drekka sem skot yfir í að blanda drykk – og það að hægt sé að finna svona mikil bragðgæði fyrir aðeins rúma tuttugu dollara gerir hann sannarlega að „vodka fólksins,“ sem er fullkomið að fylla vel á fyrir veislur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert