Súper einfaldur og góður kjúklingur með leynisósu

Ómótstæðilega girnilegur kjúklingurinn hennar Margrétar Ríkharðsdóttir með leynisósunni.
Ómótstæðilega girnilegur kjúklingurinn hennar Margrétar Ríkharðsdóttir með leynisósunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þessi uppskrift að heilum kjúkling er ótrúlega einföld og góð. Það þarf ekki mikið til að elda súper góðan kjúkling með meðlæti sem steinliggur. Heiðurinn að þessari uppskrift á Margrét Ríkharðsdóttir matreiðslumeistari og yfirkokkur á veitingastaðnum Duck & Rose en hún veit fátt skemmtilegra en að njóta þess að borða góðan mat í góðum félagsskap.

Gestakokkur í heimsókn í október

Það nóg um að vera í vinnunni hjá Margréti og október verður litríkur og skemmtilegur þegar kemur að matargerðinni á Duck & Rose. „Við erum ótrúlega spennt fyrir haustinu og margt spennandi fram undan hjá okkur á Duck & Rose við erum að setja í gang nýjan matseðil með mörgum spennandi réttum til að mynda er að koma klístraður bbq andarvængur með epla og sellerírótar hrásalati en hann var á seðli þegar við opnuðum og mikil spenna hjá gestunum okkar að fá hann aftur. Og svo margir aðrir góðir réttir að koma inn,“ segir Margrét.

„Svo aðra vikuna í október fáum við til okkar Ítalskan gesta kokk hann Cornell G. Popa en hann er frá Puglia og mun matseðilinn vera innblásinn frá því svæði og á sama tíma kynnum við ný ítölsk vín sem eru að koma á seðil mikil spenna hjá okkur fyrir því.“
Margrét Ríkharðsdóttir matreiðslumeistari og yfirkokkur á Duck & Rose deilir …
Margrét Ríkharðsdóttir matreiðslumeistari og yfirkokkur á Duck & Rose deilir hér með lesendum einfaldri og góðri uppskrift að heilum kjúkling og einföldustu og bestu leynisósu í heimi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sér um sjálft þegar inn í ofn er komið

Þrátt fyrir annir í vinnunni er Margrét duglega að elda heima líka og bjóða í mat. „Ég elska að elda heilan kjúkling með fallegu íslensku grænmeti, hrísgrjónum og ofur einfaldri sósu á haustin. Best er hvað þetta er súper einfalt og sér smá um sig sjálft alla vega þegar komið inn í ofn,“ segir Margrét. Hún notar þá tímann gjarnan til þess að dunda sér við að gera kósí stemningu, leggja fallega á borð og kveikja á kertum meðan kjúklingurinn eldast í ofninum.

Má nota hvaða grænmeti sem er

„Úrvalið af íslensku grænmeti er mikið núna og því um að gera að velja það. Hægt er að velja hvaða grænmeti sem er en ég valdi papriku, gulrætur, brokkolí, kúrbít, lauk, hvítlauk og chili. Hvítlaukur og chili gerir allt betra svo ég mæli innilega með smá af því. Ef verið að elda fyrir börn þá til dæmis hægt að sleppa þvi að setja chili yfir helminginn af grænmetinu. Síðan er það toppurinn leynisósan, einfaldasta sósa heims sem allir elska,“ segir Margrét og lofar að þessi réttur eigi eftir að hitta í mark.

Heill kjúklingur eldaður að hætti Möggu

Fyrir 4 ( 2 fullorðna, 2 börn)

  • 1 heill kjúklingur (1,4-1,6 kg)
  • 1 kúrbítur skorinn í bita
  • 1 poki gulrætur skorið í bita óþarfi að flysja þær
  • 1 laukur skorinn í báta
  • 1 haus brokkolí skorinn í bita
  • 3 hvítlauksgeirar marðir
  • 1 chili fræ hreinsaður smátt saxaður
  • Ólífuolía
  • Salt eftir smekk
  • Pipar eftir smekk
  • Best á kjúklinginn
  • Sítrónublanda frá Mabrúka
  • Smjör eftir smekk
  • Hrísgrjón eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn á 180°C og hafið á blæstri.
  2. Setjið allt grænmetið í eldfast mót eða fat.
  3. Hellið ólífuolíu yfir og kryddið til með salti og pipar.
  4. Skolið kjúklinginn og kryddið síðan vel með kjúklingakryddi og sítrónublöndunni frá Mabrúka.
  5. Leggið síðan kjúklinginn yfir grænmetið og setjið inn í ofn í um það bil klukkustund.
  6. Þegar um það bil 20 mínútur eru eftir þar til kjúklingur er tilbúinn þá eru hrísgrjónin soðin til að einfalda sér lífið er snilld að nota hrísgrjónin í poka frá Tilda, 3-4 pokar eru fullkomið magn.
  7. Þegar hrísgrjónin eru soðin setjið þá matskeið af smjöri og 2 teskeiðar af kjúklingakraft eða einn kubb út í, þá verða þau extra góð. 

Leynisósan

  • 1 peli rjómi
  • ½ flaska Bbq sósa að eigin vali
  • 1 msk. kjúklingakraftur eða 1 teningur

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í pott og blandið vel.
  2. Látið suðuna koma upp og þá er sósan klár.
  3. Berið kræsingarnar fallega á borð og njótið í kósíheitum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert