Vegan „Paris-Brest“ bollur fyrir sælkera

Vegan „Paris-Brest“ bollur með pralín og vanillurjómakremi sem upplagt er …
Vegan „Paris-Brest“ bollur með pralín og vanillurjómakremi sem upplagt er að baka og prófa fyrir bolludaginn stóra. Ljósmynd/Valla Gröndal

Þessar vegan Paris-Brest“ bollur með pralíni og vanillurjómakremi eru sannkallað augnakonfekt. Uppskriftin kemur úr smiðju Valgerðar Grétu Gröndal, ávallt kölluð Valla, ástríðubakara sem heldur úti uppskriftasíðunni Valla Gröndal. Þær eru gerðar úr stökku smjördeig með silkimjúku vanillukremi og heimagerðu pralíni sem bráðnar í munni.

Valla var lengi að prófa sig áfram með gerð þessarar bollu og gerði ótal útgáfur af henni. „Þessi útgáfa kom lang best út. Bollan sjálf er úr smjördeigi sem er nánast án undantekninga vegan. Heimagerða pralínið er gert úr ristuðum heslihnetum og möndlum og vanillukremið úr haframjólk og hafrarjóma ásamt góðri vanillu og vegan smjöri. Þessi samsetning er algerlega himnesk og ég skora á ykkur að prófa þessa dýrð,“ segir Valla.

Vegan Paris-Brest“ bollur með pralín og vanillurjómakremi

  • 2 rúllur smjördeig
  • Vegan vanillukrem (uppskrift fyrir neðan)
  • Heimagert Pralín (uppskrift fyrir neðan)
  • Ristaðar heslihnetur til skrauts

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C blástur.
  2. Rúllið deiginu út og skerið út kringlóttar kökur með móti eða glasi, stærðin fer eftir smekk en mér finnst betra að hafa þær ekki mikið stærri en 5 cm.
  3. Leggið kökurnar á bökunarpappír, smyrjið hverja köku með hafrarjóma og leggið aðra köku yfir. Penslið yfir efri kökuna með hafrarjóma.
  4. Bakið í 15-20 mínútur þar til bollurnar eru orðnar gylltar. Takið bollurnar út og látið kólna.

Vegan vanillukrem

  • 180 ml Oatly ikaffe haframjólk
  • 80 ml Oatly visp hafrarjómi
  • ½ tsk. vanillukorn
  • 35 g hrásykur
  • 30 g maísena mjöl
  • salt á hnífsoddi
  • 25 g vegan smjör mjúkt

Aðferð:

  1. Setjið vanillukorn, hrásykur, maísena mjöl og salt saman í skál.
  2. Setjið mjólkina og rjómann saman í pott og hitið að suðu.
  3. Hellið um ¼ af mjólkinni út í sykurblönduna og hrærið vel. Hellið restinni saman við smám saman.
  4. Setjið blönduna aftur í pottinn og sjóðið við vægan hita í 2-3 mínútur þar til búðingurinn þykknar.
  5. Takið pottinn af hellunni og hrærið smjörinu saman við með sleikju.
  6. Hellið búðingnum í sigti og þrýstið honum með sleikju í gegnum sigtið í skál.
  7. Setjið plastfilmu yfir og látið hana alveg snerta yfirborðið á búðingnum svo það komist ekki skán á hann.
  8. Kælið í að minnsta kosti 2-3 klukkustundir áður en hann er notaður.

Hafrarjóminn

  • 1 peli hafrarjómi frá Oatly
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 1 tsk. sítrónusafi 

Aðferð:

  1. Þeytið allt vel saman þar til rjóminn er stífþeyttur.

Pralín

  • 120 g möndlur
  • 120 g heslihnetur
  • 150 g sykur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 150°C blástur.
  2. Setjið bökunarpappír á plötu og dreifið hnetunum á plötuna.
  3. Ristið í ofninum í 15 mínútur.
  4. Setjið hreint viskastykki á borðið og hellið hnetunum á það. Nuddið hýðið af þeim með því að nudda þær saman viskastykkinu. Athugið að hýðið fer ekki af möndlunum.
  5. Bræðið sykurinn þar til hann verður og aðeins farinn að dökkna, varist að brenna hann.
  6. Hellið yfir hneturnar og látið kólna alveg.
  7. Setjið í matvinnsluvél og vinnið í að minnsta kosti 10 mínútur.
  8. Fyrst myljast hneturnar með sykrinum og eru nánast eins og granóla, haldið áfram að láta vélina vinna og skafið niður á milli ef þarf. Hafið bara trú á ferlinu, eftir nokkrar mínútur fer þetta að breytast í „smjör“, haldið þá áfram að vinna svo áferðin verði fínleg á pralíninu. 

Samsetning:

  1. Blandið saman kreminu við rjómann í hlutföllunum ¼ krem á móti ¾ rjóma.
  2. Kremið er frekar stíft beint úr kæli og það er gott að hræra aðeins í því áður en því er blandað saman við rjómann.
  3. Hlutföllin eru: 1 msk. krem á móti 4 msk. af rjóma.
  4. Það má auðvitað leika sér með hlutföllin eftir smekk. Mér finnst best að setja kremið á bolluna með því að setja það í sprautupoka.
  5. Skerið bollu í tvennt.
  6. Smyrjið botninn með pralíni og sprautið vanillukremrjóma yfir.
  7. Setjið lokið á, sprautið smá rjómakremi á toppinn og skreytið með ristuðum heslihnetum.
  8. Berið fram og njótið við huggulegheit í góðum félagsskap.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert