Truflaðar heslihnetu brownies með súkkulaðismjöri

Hinar fullkomnu brownies með heslihnetum fyrir vandláta.
Hinar fullkomnu brownies með heslihnetum fyrir vandláta. Ljósmynd/ Valla Gröndal

Þessar brownies eru fullkomnar með góðu djúpu súkkulaðibragði en bragðið af súkkulaðismjörinu og núggatinu í súkkulaðinu skín í gegn. Ristaðar heslihneturnar færa þær svo upp á eitthvað stig eins og Valgerður Gréta Gröndal, alla jafna kölluð Valla, kemst svo vel að orði þegar hún lýsir dýrðinni. Valla á heiðurinn af þessari uppskrift og birti á uppskriftasíðu sinni hér. Það er svo sannarlega þess virði að prófa þessar þegar tækifæri gefst.

Það tekur smá tíma að nostra við þær en það er fullkomlega þess virði. Þær eru mjúkar, smá blautar í miðjunni en með stökkum toppi eins og brownies eiga að vera.

Heslihnetu brownies með súkkulaðismjöri

  • 80 g heslihnetur, ristaðar og án hýðis, ég notaði frá Rapunzel
  • 170 g smjör
  • 180 g 70% súkkulaði frá Rapunzel, gróft saxað
  • 100 g núggat súkkulaði frá Rapunzel, gróft saxað
  • 150 g Bionella súkkulaðismjör frá Rapunzel + 50g til að setja ofan á
  • 245 g sykur
  • 3 egg + ein eggjarauða, við stofuhita
  • 1 tsk. vanilludropar
  • ½ tsk. vanillukorn frá Rapunzel, má sleppa og setja 2 tsk. vanilludropa
  • 100 g hveiti
  • 25 g kakó
  • ½ tsk. sjávarsalt

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C blástur.
  2. Setjið hneturnar á plötu og ristið í ofninum í 15 mínútur.
  3. Takið þær þá út og hellið á hreint viskastykki.
  4. Nuddið hneturnar þar til mest allt hýðið er farið af.
  5. Kælið aðeins og saxið svo gróft.
  6. Setjið til hliðar.
  7. Lækkið hitann í 175°C blástur og setjið bökunarpappír í ferkantað form sem er 23x23cm.
  8. Setjið smjör, 70% súkkulaði og núggatsúkkulaðið í bitum í pott og hitið við vægan hita þar til þetta er bráðið saman. Takið pottinn af hellunni.
  9. Hrærið þá 150 g af Bionella súkkulaðismjörinu saman við og setjið til hliðar.
  10. Setjið egg og sykur í hrærivélaskál og þeytið þar til blandan er orðin létt og ljós eða í um 3-4 mínútur.
  11. Bætið vanilludropum og kornum saman við ef þið notið þau og þeytið áfram í nokkrar sekúndur.
  12. Vigtið þurrefnin og setjið til hliðar.
  13. Takið þeytarann af hrærivélinni og blandið súkkulaðiblöndunni varlega saman við með sleikju. Sigtið því næst þurrefnin saman við og hrærið varlega með sleikjunni.
  14. Setjið helminginn af deiginu í formið og stráið hnetunum yfir, skiljið eftir smávegis til að strá yfir kökuna.
  15. Setjið restina af deiginu yfir og sléttið aðeins úr. Bakið í 35 mínútur. Takið þá kökuna út og kælið.
  16. Velgið 50 g af súkkulaðismjörinu í nokkrar sekúndur í örbylgjunni og dreifið yfir kökuna, stráið restinni af hnetunum yfir og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert