George Best er látinn

George Best.
George Best. Reuters/Action Images

George Best, einn dáðasti knattspyrnumaður allra tíma, lést á Cromwell-sjúkrahúsinu í London í dag, 59 ára að aldri, eftir langvarandi veikindi.

Best var lykilmaður í liði Manchester United og lék stórt hlutverk í sigri liðsins í Evrópukeppni meistaraliða árið 1968 þegar United varð Evrópumeistari fyrst enskra liða. Í kjölfarið var hann kjörinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu, 22 ára gamall. Hann lék með United frá 1963 til 1974. Lokaleikur hans með félaginu var á nýársdag 1974, gegn QPR, en eftir það var hann látinn fara vegna óreglu. Hann spilaði næstu árin með mörgum liðum í Englandi, Írlandi, Skotlandi og Bandaríkjunum án þess að festa neins staðar rætur.

Best þótti sannkallað undrabarn í knattspyrnunni og er talinn einhver leiknasti fótboltamaður sögunnar. Ferli hans lauk alltof snemma, hann fór tæplega 28 ára gamall frá Manchester United, og líf hans var ávallt markað af óhóflegri áfengisneyslu og vandamálum sem henni tengdust.

Best var lagður inn á sjúkrahús í byrjun október, þá með einkenni slæmrar flensu, og heilsu hans hrakaði fljótlega eftir það. Hann virtist vera að ná sér eftir slæma sýkingu þegar honum versnaði snögglega á ný síðasta föstudag og eftir það barðist hann fyrir lífi sínu með góðri aðstoð lækna á Cromwell-sjúkrahúsinu, þar til yfir lauk.

Ítarlega umfjöllun um George Best er að finna í Morgunblaðinu í dag en þar segir Sigmundur Ó. Steinarsson frá ferli hans í opnu íþróttablaðsins.

Sjá einnig enski.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert