Benítez: Gerrard lærir af mistökunum

Steven Gerrard lærir af mistökunum sem hann gerði í dag, …
Steven Gerrard lærir af mistökunum sem hann gerði í dag, sagði Benítez. Reuters

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði að fyrirliðinn Steven Gerrard muni læra af þeim mistökum sem hann gerði í nágrannaslagnum gegn Everton á Anfield í dag. Gerrard var þá rekinn af velli á 18. mínútu eftir að hafa fengið gula spjaldið í tvígang með mínútu millibili. Þrátt fyrir það vann Liverpool sætan sigur, 3:1.

Gerrard fékk fyrra spjaldið fyrir að sparka boltanum í burtu eftir að flautað hafði verið á brot. Mínútu síðar braut hann á Kevin Kilbane hjá Everton og Phil Dowd dómari átti ekki annars úrkosta en að vísa honum af velli.

„Steven var sár út í sjálfan sig en afar ánægður fyrir hönd liðsins. Hann er mjög kappsfullur leikmaður og gefur alltaf 100 prósent í leikinn en stundum verður maður að láta heilann ráða för en ekki hjartað. Þetta voru mistök hjá honum en hann mun læra af þeim og verða betri leikmaður fyrir vikið," sagði Benítez, sem jafnframt hældi stuðningsmönnum Liverpool fyrir þeirra þátt.

„Ég verð að þakka þeim kærlega fyrir þeirra magnaða stuðning og er virkilega glaður fyrir þeirra hönd því þetta var mikill sigur. Að spila meirihluta leiksins manni færri er erfitt en leikmenn okkar lögðu gífurlega hart að sér og verðskulduðu sigurinn. Luis Garcia og Harry Kewell skoruðu stórkostleg mörk. Við vissum hvernig við þyrftum að spila gegn líkamlega öflugu og góðu liði. Crouch lék mjög vel frammi, hélt boltanum vel og fékk góðan stuðning hjá Harry og Luis. Xabi Alonso og Momo Sissoko stjórnuðu miðjunni og liðsheildin var frábær," sagði Rafael Benítez.

Sjá einnig enski.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert