Atvinnuleysi mælist 1,1% í júní

Steinunn Ásmundsdóttir

Skráð atvinnuleysi í júní 2008 var 1,1% eða að meðaltali 1.842 manns, sem eru 103 fleiri en í maí sl. eða um 6% aukning. Atvinnuleysi var 1% á sama tíma í fyrra. Atvinnuleysi jókst á höfuðborgarsvæðinu um 18% í júní en minnkaði á landsbyggðinni um 7% .Atvinnuleysi kvenna jókst meira en meðal karla á höfuðborgarsvæðinu en minnkaði meðal kvenna á landsbyggðinni, svo og meðal karla þar.

Atvinnuleysi þeirra sem hafa verið á skrá í allt að 3 mánuði jókst milli mánaða, en alls höfðu 1.183 verið án vinnu í 3 mánuði í júní 2008 en 1.022 í maí.  Hins vegar fækkaði þeim sem hafa verið á skrá lengur en 6 mánuði og voru 477 án vinnu í yfir 6 mánuði í júnílok en 506 í maílok.

Atvinnuleysi eykst væntanlega í júlí

Oft minnkar atvinnuleysið milli júní og júlí.  Í fyrra minnkaði atvinnuleysið um 3% milli þessara mánaða og fór úr 1% í júní og í 0,9% í júlí.  Atvinnulausum í lok júní fjölgaði frá lokum maí um 87 og um 295 frá júní 2007.  Líklegt er að atvinnuleysið muni aukast í júlí 2008 og verða á bilinu 1%-1,3%.

Mánaðarskýrsla Vinnumálastofnunar 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert