Vill rjúfa tengslin við kirkjuna

Spænskt þjóðfélag stefnir á nútímalegri hætti í samskiptum við kaþólsku …
Spænskt þjóðfélag stefnir á nútímalegri hætti í samskiptum við kaþólsku kirkjuna. Reuters

Hin nýmyndaða ríkisstjórn á Spáni segist vilja endurskoða hin sterku tengsl ríkis og kaþólsku kirkjunnar í landinu og færa sig nær veraldlegu kerfi. Í spænskum fjölmiðlum er í dag vitnað í orð aðstoðarforsætisráðherrans Mariu Fernandez de la Vega sem sagði að endurskoða ætti lög um trúfrelsi.

Fernandez de la Vega sagði nefnd skipaðri af þinginu að „meiningin væri að færast nær því veraldlega eða ókirkjulega mati sem stjórnarskráin veitir ríkinu og að viðurkenna réttindi efasemdamanna."

Ríkisstjórn Jose Luis Rodriguez Zapatero hyggst taka meira tillit til hins fjölbreytta trúarumhverfi sem einkennir spænskt þjóðfélag nú orðið og tryggja betur jafnræði milli kaþólsku kirkjunnar og annarra trúfélaga.

Kaþólska kirkjan er áhrifamikil á Spáni og um 80% þjóðarinnar tilheyra henni þó að einungis helmingur hennar iðki trú sína. Ríkið greiðir árlega um 4 milljarða evra til kaþólsku kirkjunnar en um 5 milljarða til allra annarra trúfélaga.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert