Kínverjar ritskoðuðu ræðu Obama

Kínversk stjórnvöld ritskoðuðu ræðuna, sem Barack Obama flutti við embættistökuna í Washington í fyrradag. Felldu þau út þá hluta hennar þar sem talað var um kommúnisma og yfirvöld, sem ekki leyfðu tjáningarfrelsi.

„Minnumst þess, að gengnar kynslóðir lögðu að velli fasisma og kommúnisma og ekki aðeins með eldflaugum og skriðdrekum, heldur ekki síður með því að standa saman og hvika hvergi frá sannfæringu sinni,“ sagði Obama. Þegar hann nefndi orðið „kommúnisma“ var útsending kínverska sjónvarpsins rofin og á skjáinn kom þulur, sem brosti heldur vandræðalega og augljóslega óundirbúinn.

Í annað sinn var útsending rofin er Obama nefndi stjórnvöld, sem ekki þyldu andstæðar skoðanir, og með þessum úrfellingum var ræðan birt í dagblöðum.

Kínversk stjórnvöld hefðu þó líklega átt að láta þetta ógert því að strax á eftir var mikil ásókn í ræðuna á netinu.

Embættistaka Obama var stóra fréttin um heim allan í gær og fyrradag en ekki í Norður-Kóreu. Þar var frá henni greint í dagblaði stjórnvalda með nokkrum orðum en ekki í útvarpi eða sjónvarpi.

svs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert