Flýta endurskoðun flugreglna í Evrópu

Siim Kallas.
Siim Kallas.

Evrópusambandið hefur ákveðið að flýta endurskoðun evrópskra reglna um flugumferðarstjórn vegna öngþveitisins sem skapaðist í síðustu viku af völdum eldfjallaösku frá Íslandi. Flugbann var yfir stærstum hluta álfunnar í heila viku af völdum öskunnar.

„Það versta er afstaðið en það er mikið starf óunnið við að fást við afleiðingarnar," sagði Siim Kallas, sem fer með samgöngumál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Þjóðverjar hafa boðið flugsérfræðingum, embættismönnum Evrópusambandsins og fulltrúum flugfélaga til Berlínar á fund á þriðjudag til að ræða um samræmda staðla fyrir flugumferðarstjórn í Evrópu og Spánn, sem fer með forsæti í ESB um þessar mundir, segir að samgönguráðherrar aðildarríkjanna muni hittast 4. maí í Brussel til að ræða um tillögur um sameinaða lofthelgi Evrópusambandsins. 

Flugumferð var í dag komin í eðlilegt horf í Evrópu. Einu flugvellirnir, sem nú eru lokaðir vegna öskuskýsins, eru Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert