Samgönguráðherrar ESB funda í maí

Kyrrstæðar flugvélar á vellinum í Manchester.
Kyrrstæðar flugvélar á vellinum í Manchester. PHIL NOBLE

Ráðherraráð Evrópusambandsins tilkynnti í dag að sérstakur fundur samgönguráðherra ESB hafi verið boðaður í Brussel þann 4. maí til að ræða lausnir í flugumferðarstjórn Evrópu í ljósi ástandsins sem skapaðist í vikunni vegna eldgossins í Eyjafjallajökli.

Spænski samgönguráðherrann Jose Blanco segir að undanfarin vika hafi „leitt í ljós þörfina á sameiginlegri endurskoðun til að bæta viðbrögð Evrópu".  Nokkrar tillögur verða ræddar á fundi ráðherranna, þar á meðal „flýta áætlun um að taka í gildi eina samevrópska lofthelgi".  Verði sú hugmynd að veruleika mun Eurocontrol, undirstofnun ESB, taka yfir nýtt flugumferðarstjórn í álfunni með nýju, samræmdu Evrópukerfi.  

Sem stendur ber hvert og eitt ríki Evrópusambandsins ábyrgð á eigin lofthelgi.  Á fundinum verður að sögn Blanco ekki  rætt um bætur til þeirra flugfélaga, ferðaþjónustufyrirtækja og ferðamanna sem tafirnar vegna eldgossins bitnuðu á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert