Lögreglan vaktar skipsflakið í Suður-Kóreu

Lögreglumenn gæta strandlengjunnar þar sem ferjan sökk
Lögreglumenn gæta strandlengjunnar þar sem ferjan sökk Mynd/AFP

Mikil örvænting ríkir á meðal aðstandenda þeirra sem saknað er eftir ferjuslysið undan ströndum Suður-Kóreu í fyrradag. Lögreglan vaktar nú strandlengjuna þar sem skipið fórst, til þess að koma í veg fyrir að fólk reyni að synda að skipsflakinu eða reyni jafnvel að fyrirfara sér á svæðinu.

Aðstaða hefur verið opnuð fyrir aðstandendur í leikfimissal skóla á eyjunni Jindo, skammt frá slysstaðnum. Vonin um að enn finnist einhver á lífi minnkar með hverri mínútunni. Aðeins hafa verið staðfest 36 dauðsföll en enn 272 manns saknað og er talið að flest séu enn föst inni í skipinu á hafsbotni.

Suður-Kóresk yfirvöld hafa alls sent 176 skip, 28 flugvélar og 652 kafara á slysstað til þess að aðstoða við leitar- og björgunaraðgerðir. Stór net hafa verið sett í hafið í kringum slysstaðinn til þess að koma í veg fyrir að lík skolist burt með hafstraumum. Sterkir hafstraumar og bræla hafa gert björgunarmannskapnum erfitt fyrir um björgunarstörf. 

Reynslulítill stýrimaður við stjórnvölinn

Saksóknarar staðfestu í dag að skipstjóri ferjunnar var ekki sjálfur við stjórnvölinn þegar slysið varð, heldur reynslulítill þriðji stýrimaður. Hann situr nú í varðhaldi, ásamt skipstjóranum og einum öðrum úr áhöfn, en þeir voru handteknir í gær vegna gruns um vanrækslu í starfi og brot á siglingalögum.

Meirihluti farþega ferjunnar var börn á gagnfræðaskólaaldri. Þau voru á leið í skólaferðalag á eyjunni Jeju. Skólastjóri gagnfræaðskólans svipti sig lífi í gær, að því er talið í örvæntingu yfir að hafa ekki getað bjargað fleirum.

Skipstjórinn sjálfur segist ekki hafa þorað að skipa krökkunum að yfirgefa skipið af hræðslu við að þau myndu hverfa á haf út vegna hafstrauma. Aðeins einn björgunarbátur ferjunnar var sjósettur í kjölfar slyssins. 

Sjá frétt mbl.is: Björgunaraðgerðir gætu tekið 2 mánuði

Sjá frétt mbl.is: Skipstjórinn biðst afsökunar

Sjá frétt mbl.is: Skipið tók skarpa beygju og sökk

Sjá frétt mbl.is: Skipstjóri ferjunnar handtekinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert