„Deif verðskuldar að deyja“

Ekkert er eftir af húsinu þar sem talið er að …
Ekkert er eftir af húsinu þar sem talið er að Deif hafi haldið sig AFP

Innanríkisráðherra Ísraels segir að Mohammed Deif, leiðtogi hernaðararms Hamas, verðskuldi að deyja. Ekki hefur verið upplýst um hvort Deif hafi látist í loftárás Ísraelshers í nótt en staðfest hefur verið að kona hans og barn létust.

„Mohammed Deif verðskuldar að deyja líkt og (Osama) bin Laden. Hann er morðingi og eins lengi og við höfum tækifæri til reynum við að drepa hann,“ sagði innanríkisráðherra Ísraels, Gideon Saar, í útvarsviðtali í morgun. 

Enn er óljóst hvort Deif hafi verið meðal þeirra sem létust eða særðust í loftaárás Ísraelshers sem jafnaði sex hæða hús í Sheikh Radwan hverfinu í Gazaborg við jörðu í nótt. 

Talsmaður öryggismála, Ashraf al-Qudra, sagði í fyrstu að þrír hafi látist í árásinni, þar á meðal ónafngreindur maður. Hann breytti síðar tölu látinna og sagði tvo hafa látist í árásinni og hefur ekki útskýrt hvers vegna hann lækkaði tölu látinna.

Eiginkona Deifs, Widad, 27 ára, og sjö mánaða gamall sonur Deifs, Ali, létust í árásinni. Eins hafa lík tveggja, 48 ára gamallar konu og 14 ára pilts verið grafin upp úr rústum hússins.

Vitni segja að þremur eldflaugum, hið minnsta, hafi verið skotið á húsið. Deif tók við sem yfirmaður hernaðararms Hamas árið 2002 eftir að forveri hans, Salah Shehade, var tekinn af lífi þegar Ísraelsher varpaði sprengju sem vó eitt tonn á heimili hans. Deif hefur þegar komist lifandi frá fimm morðtilraunum Ísraela.

Ísraelar telja að hann sé heilinn á bak við sjálfsvígsárásir sem gerðar voru á fjölförnum stöðum á árunum 2000-2005 og saka hann um að bera persónulega ábyrgð á dauða tuga almennra borgara.

Mohammed Deif
Mohammed Deif AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert