Send heim og tók eigið líf

Félagsþjónustan er harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki veitt konunni …
Félagsþjónustan er harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekki veitt konunni þá aðstoð sem hún þurfti á að halda. Konan, sem var 79 ára gömul, framdi sjálfsvíg eftir að hafa verið send heim af hjúkrunarheimili. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Félagsþjónustan í Asker í Noregi er harkalega gagnrýnd af yfirlækni héraðsins og geðlæknum fyrir að hafa ekki veitt 79 ára gamalli konu sem átt i við geðræn vandamál að stríða, viðeigandi aðstoð. Hún framdi sjálfsvíg eftir að hafa verið send heim af hjúkrunarheimili.

Aftenposten fjallar um mál konunnar á vef sínum í dag en hún framdi sjálfsvíg árið 2010. Konan var gift og bjó með eiginmanni sínum. Í annarri íbúð í sama húsi bjó dóttir þeirra með fjölskyldu sinni. Konan átti við geðræn vandamál að stríða auk áfengis- og vímuefnavanda. Fjölskylda hennar hafði ítrekað haft samband við félagsþjónustuna í Asker vegna konunnar og reynt að fá viðeigandi aðstoð fyrir hana án árangurs.

Jafnframt reyndi geðlæknir hennar að koma henni inn á stofnun fyrir fólk sem glímir við andleg veikindi en talaði fyrir daufum eyrum. Seint á árinu 2009 tókst loks að koma henni inn á hjúkrunarheimili en fljótlega var hún send heim, eða fyrir jól. Í janúar 2010 framdi hún sjálfsvíg.

Héraðslæknirinn í Asker hefur rannsakað málið og segir í samtali við Aftenposten að ekki hafi verið nokkur skilningur á því hversu alvarleg veikindi konan glímdi við. „Því fékk hún ekki þá þjónustu sem henni bar,“ segir læknirinn, Petter Schou. Undir þetta tekur geðlæknirinn Jon Johnsen, sem starfar við Blakstad sjúkrahúsið. „Hefði konan fengið langtímavistun á hjúkrunarheimilinu eða á sjúkrahúsi frá jólunum þá er ólíklegt að hún hefði dáið.“

Ítarlega er fjallað um mál konunnar í Aftenposten í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert