1.119 létust á einum mánuði

Frá Anbar. Gífurlegt ofbeldi hefur verið þar undanfarna mánuði.
Frá Anbar. Gífurlegt ofbeldi hefur verið þar undanfarna mánuði. AFP

Að minnsta kosti 1.119 manns létust í átökum í Írak í síðasta mánuði. Þetta kemur fram í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum. Í þessari tölu er þó ekki tekin með dauðsföll vígamanna og þeirra sem hafa látist í héraðinu Anbar.

Talið er að minnsta kosti 854 óbreyttir borgarar og 265 meðlimir öryggissveita hafi látist í átökum í september. Næstum því 2000 hafa særst.

Tölurnar eru þó lægri en í sumar en í júlí létust 1.737 í átökum og 1.420 í ágúst. Sameinuðu þjóðirnar lögðu þó áherslu á að í þeim tölum eru dauðsföll í Anbar ekki tekin með.

Gífurlegt ofbeldi var í Anbar í september. Þar má helst nefna árásir vígamanna á herstöðvar en óttast er að hundruðir hafi látist í þeim.  Jafnframt er talið að mörg dauðsföll séu ekki tilkynnt.

Sameinuðu þjóðirnar telja heldur ekki með þá sem létust vegna átakanna, það er þeirra sem látist hafa vegna skorts á vatni, mat og lyfjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert