Þrjátíu skólabörn létu lífið

Myndin er tekin fyrir utan skólabygginguna.
Myndin er tekin fyrir utan skólabygginguna. AFP

Tvær öflugar sprengjur sprungu við skólabyggingu í sýrlensku borginni Homs í dag með þeim afleiðingum að minnst 39 týndu lífi, þar af 30 skólabörn. Talið er að einn og sami maðurinn beri ábyrgð á ódæðinu.

Mannréttindasamtök sem starfandi eru á svæðinu segja sprengjurnar tvær hafa sprungið við skólann Akrameh al-Makhzumi. Ódæðismaðurinn er sagður hafa komið einni sprengju fyrir við skólabygginguna skömmu áður en hann sprengdi sjálfan sig í loft upp skammt frá.

Fréttaveita AFP greinir frá því að engin samtök hafi enn lýst yfir ábyrgð sinni á verknaðnum. Hins vegar beinist grunur að ákveðnum hópi vígamanna sem tengdir eru hryðjuverkasamtökum al-Qaeda, en þeir hafa áður staðið fyrir svipaðri árás þar sem minnst 12 létu lífið. 

Skólabörnin sem létust í árásinni í dag voru á aldrinum sex til níu ára. Er talið að 74 til viðbótar hafi særst í sprengingunum.

Er þetta mesta mannfall í röðum barna frá því að átökin í Sýrlandi hófust fyrir um þremur árum síðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert