„Hann tók af okkur framtíð okkar“

Cumberland hótelið í London þar sem árásirnar áttu sér stað.
Cumberland hótelið í London þar sem árásirnar áttu sér stað. AFP

Maður sem barði þrjár systur með hamri á hóteli í London í apríl hefur verið dæmdur fyrir tilraun til morðs. Maðurinn hafði barið konurnar ítrekað með hamrinum á meðan börn þeirra sváfu við hlið þeirra. Konurnar, sem eru frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum, voru í helgarferð í London þegar árásin átti sér stað. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu.

Maðurinn, sem heitir Philip Spence og er 32 ára gamall hafði játað árásina, en neitaði að um morðtilraun hefði verið að ræða. 

Aðeins með 5% heilastarfsemi eftir árásina

Eitt fórnarlambanna, 34 ára gamla Ohoud Al-Najjar, var barin svo fast í höfuðið að höfuðkúpa hennar brotnaði. Konan lifði árásina af en er nú aðeins með 5% heilastarfsemi. Hún getur því ekki talað, og auk þess missti hún annað augað.

Systur hennar, hin 36 ára gamla Khulood, og 31 árs gamla Fatima, hlutu einnig lífshættulega áverka og eru enn undir eftirliti lækna.

Í yfirlýsingu frá fjölskyldunni sagði Fatima það „brjóta hjarta sitt“ að sjá systur sína, Ohoud. „Hún er núna bundin við sjúkrahúsrúm það sem eftir er af lífi hennar og getur ekki tjáð sig, borðað, séð né hreyft sig,“ sagði hún. „Það eina sem hún getur gert er að kreista hönd mína; hún er lifandi dáin systir.“

Khulood og Fatima sögðust hafa þurft að hætta í störfum sínum vegna meiðslanna, og sögðu Spence hafa „tekið af okkur framtíð okkar.“

„Blóð alls staðar“

Systurnar þrjár höfðu skilið hurðina á hótelherbergi sínu eftir ólæsta, svo fjórða systirin kæmist inn. Ein systranna vaknaði svo um nóttina við það að Spence var að gramsa í dótinu þeirra. Í kjölfarið réðst hann á Khulood þar sem hún lá við hlið tveggja ungra dætra sinna, og sneri sér svo að hinum systrunum og barði þær ítrekað.

Fjórða systirin, Sheika Al-Mheiri, sagðist hafa komið inn á herbergið stuttu seinna og fundið systur sínar meðvitundarlausar á gólfinu og það hefði verið „blóð alls staðar.“

Spence, sem er eiturlyfjafíkill, flúði af vettvangi með tösku sem innihélt iPad-spjaldtölvur, skartgripi og farsíma. Hann henti hamrinum frá sér fyrir utan hótelið. 

Spence gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Frétt mbl.is: Réðst á hótelgesti með hamri

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert