Líklega efnt til annarrar umferðar

Starfsmenn kjörstjórnar vinna að talningu atkvæða.
Starfsmenn kjörstjórnar vinna að talningu atkvæða. AFP

Sögum ber ekki saman af gengi frambjóðenda í forsetakosningunum sem fram fóru í Túnis í gær. Kosningastjóri sitjandi forseta, Moncefs Marzoukis, sagði hann og helsta keppinaut hans, Beji Caid Essebsi, fyrrverandi forsætisráðherra, hnífjafna á meðan stuðningsmenn Essebsis sögðu hann hafa umtalsvert forskot, þegar kjörstöðum hafði verið lokað.

Á kjörseðlinum voru alls 27 frambjóðendur en skoðanakannanir fyrir kosningarnar bentu til þess að Essebsi nyti mests stuðnings meðal kjósenda. Könnun sem framkvæmd var af einkafyrirtæki meðan á kosningunum stóð sýndi að 42,7-47,8% kjósenda hefðu kosið Essebsi en 26,9-32,6% Marzouki.

Þar sem frambjóðandi þarf hreinan meirihluta atkvæða til að hljóta forsetakjör verður að teljast líklegt að gengið verði til annarrar umferðar.

Kosningarnar þykja sögulegar í ljósi þess að um er að ræða fyrstu forsetakosningarnar í fyrrverandi einræðisríkinu frá byltingunni 2011, sem hrinti af stað þeirri byltingaöldu sem síðar var kölluð „arabíska vorið“.

Endanleg úrslit munu liggja fyrir í síðasta lagi á miðvikudag. Kosningaþátttaka var 64,6% en um 5,3 milljónir voru á kjörskrá.

Tímamót í Túnis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert