15 ára drepinn fyrir hjólið sitt

London
London AFP

15 ára drengur var stunginn til bana í London í gærkvöldi af þremur mönnum. Drengurinn hét Alan Cartwright og var að hjóla með vinum sínum þegar árásin átti sér stað en árásarmennirnir stálu tveimur af hjólum af vinum hans að því er The Telegraph greinir frá.

Táningurinn skjögraði áfram stutta vegalengd á hjólinu sínu áður en hann féll á gangstéttina að sögn vitna. Bráðaliðar reyndu að framkvæma endurlífgun á staðnum en allt kom fyrir ekki og Cartwright lést af sárum sínum.

Cartwright er þriðji táningurinn í Islington hverfi London til að deyja við hörmulegar kringumstæður á fimm mánuðum. Hinn 18 ára Henry Hicks lést í desember síðastliðnum en hann var á rafknúnu hljóli og klessti á þar sem lögregla veitti honum eftirför. Vinur Henry, hinn 17 ára Joe Walker lést svo fyrir tveimur mánuðum síðan, einnig í árekstri á rafknúnu hjóli. Þrátt fyrir að drengirnir hafi verið á mismunandi aldri áttu þeir allir sameiginlega vini og mun samfélagið í Islington vera niðurbrotið vegna dauðsfallanna.

Nokkur fjöldi fólks hópaðist að árásarstaðnum í dag til að minnast Cartwright. Vinir hans komu með blóm, kort og ljósmyndir en einnig mat sem var í uppáhaldi hjá honum svo sem mjólk, Oreo kex, Doritos og Haribo hlaup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert