Hafa fundið lífsýni úr 78 manns

AFP

Fundist hafa lífsýni úr meira en helmingi þeirra sem fórust í frönsku Ölpunum í síðustu viku. Réttarmeinafræðingar hafa greint lífsýni úr tæplega 80 þeirra sem voru í flugvél Germanwings sem fórst á þriðjudag.

Líkt og fram hefur komið læsti aðstoðarflugmaður flugs 4U 9525, Andreas Lubitz, sig inni í flugstjórnarklefanum og hleypti ekki flugstjóra Airbus þotunnar inn aftur eftir að hann brá sér frá á flugleiðinni frá Barcelona til Düsseldorf. Lubitz flaug síðan þotunni vísvitandi á fjall í Ölpunum með þeim afleiðingum að allir um borð, 150 manns fórust.

Enn er verið að leita líkamsleifa þeirra sem fórust en það hefur gengið hægt, bæði eru aðstæður erfiðar og eins er svæðið stór sem leitað er á. 

Saksóknari í Marseille, Brice Robin, einn þeirra sem fer fyrir rannsókninni, segir að verið sé að byggja veg svo hægt verði að fjarlægja stærstu hluta flugvélarinnar á brott landleiðina.

Hann segir að kennsl hafi verið borin á 78 manns með lífsýnum þeirra en ekkert lík hefur fundist heilt enda var flugvélin á 700 km hraða þegar hún fórst. 

Mjög bratt er á slysstaðnum og til þess að gæta fyllsta öryggis þeirra sem vinna að hreinsunarstarfinu þá gengur leitin hægt. Flestar líkamsleifar eru fluttar á brott með þyrlum og fer rannsókn á þeim fram í bænum Seynes þar sem um 50 réttarmeinafræðingar vinna hörðum höndum að því að bera kennsl á sem flesta. Verið er að rannsaka 400-600 líkamsparta.

Stjórnandi rannsóknarinnar segir að rannsóknin geti tekið langan tíma og að rannsakendur eigi erfitt með að athafna sig á svæðinu en yfir sex hundruð manns tóku þátt í aðgerðinni þegar mest var. Rannsókn á brotlendingunni gæti tekið allt að einum mánuði, að mati þýskra sérfræðinga. Enn er eftir að finna annan svörtu kassanna en hann gæti varpað frekari ljósi á það hvað gerðist um borð í flugvélinni.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert