Staðfesta loforð um að draga úr losun

Barack Obama, forseti, kynnti fyrst loforðið um að draga úr …
Barack Obama, forseti, kynnti fyrst loforðið um að draga úr losun í heimsókn í Kína í nóvember í fyrra. AFP

Bandarísk stjórnvöld hétu því formlega í dag að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 25-28% miðað við árið 2005 fyrir árið 2025. Barack Obama, forseti, gaf loforðið í Kína í fyrra en nú er stjórn hans og næstu stjórnir bundnar af því gagnvart Sameinuðu þjóðunum.

„Um áratugaskeið höfum við vitað hvers vegna meðalhiti jarðar fer hækkandi. Það er tími til kominn að við tökum mark á viðvörunum. Það er kominn tími til að heimsbyggðin grípi til aðgerða,“ sagði Brian Deese, ráðgjafi ríkisstjórnar Obama þegar hann kynnti fyrirheitið í dag.

Loforðið kemur í aðdraganda loftslagsþings Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður í París í desember. Þar er stefnt að því að gera fyrsta samkomulagið sem skuldbindur bæði ríkar og snauðar þjóðir til að grípa til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum. Markmiðið er að halda hlýnun jarðar innan við 2°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu.

Umhverfisverndarsamtök hafa tekið áformum bandarískra stjórnvalda vel en vara við því að þau dugi ein og sér engan veginn til þess að halda hlýnun innan við 2°C.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert