Deilt um nær 150 tígrisdýr í munkaklaustri

Embættismenn í Taílandi byrjuðu í gær að telja tígrisdýr í munkaklaustri í Kanchanaburi-héraði í vesturhluta landsins og sögðu að munkarnir hefðu haldið nær 150 tígra sem gæludýr án tilskilinna leyfa. Dýraverndarsamtök höfðu látið í ljósi áhyggjur af aðbúnaði dýranna.

Embættismennirnir hófu rannsókn málsins eftir að dýralæknir klaustursins skýrði lögreglunni frá því að þrjú tígrisdýr hefðu horfið úr klaustrinu. Óttast var að dýrin hefðu verið seld.

Klaustrið heitir Wat Pha Luang Ta Bua og er oft kallað „Tígra-hofið“. Það hefur notið mikilla vinsælda meðal erlendra ferðamanna sem flykkjast þangað til að láta taka myndir af sér með tígrisdýrunum.

Embættismenn þjóðgarða- og náttúruverndarráðuneytis Taílands sögðu fyrr í vikunni að þeir hygðust fara í klaustrið til að fjarlægja tígrisdýrin. Þegar þeir mættu á staðinn í gær létu þeir þó nægja að telja dýrin og skanna örflögur sem höfðu verið settar í þau.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert