Börn létust í árásum Bandaríkjahers

Loftárásir Bandaríkjamanna í Sýrlandi.
Loftárásir Bandaríkjamanna í Sýrlandi. AFP

Loftárásir Bandaríkjahers í Sýrlandi á síðasta ári urðu til þess að tvö börn létust. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um mannfall í átökunum sem fjallað er um á vef breska ríkisútvarpsins.

„Við sjáum eftir þeim lífum sem við tókum óviljandi,“ sagði liðsforinginn James Terry, stjórnandi aðgerðarinnar.

Loftárásir Bandaríkjahers á svæði nálægt borginni Harim þann 5. og 6. nóvember sl. sem var beint að hryðjuverkahópnum Khorasan urðu til þess að saklausir borgarar, þar á meðal börnin tvö, létust.

Að sögn yfirvalda hafði þó ekkert bent til þess að börn væru á svæðinu áður en árásirnar voru gerðar, en um hernaðarsvæði er að ræða. 

Í yfirlýsingu um skýrsluna kemur fram að yfirvöld hafi talið sig hafa gengið úr skugga um að aðeins vígamenn væru á svæðinu. Terry segir bandarísk hernaðaryfirvöld þó munu halda áfram að gera sitt besta við að stuðla að öryggi óbreyttra borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert