Boko Haram myrtu 97 manns

Stríð Boko Haram gegn nígeríska hernum hefur tekið nokkur ár …
Stríð Boko Haram gegn nígeríska hernum hefur tekið nokkur ár og er mannfall óbreyttra borgara talið vera um 13 þúsund manns. Þá hafa nokkur hundruð þúsund manns flúið heimili sín í norðuhluta landsins. AFP

Allavega 97 manns voru drepnir í árás meðlima Boko Haram samtakanna í bænum Kukawa, nálægt borginni Monguna í norðausturhluta Nígeríu. Samkvæmt heimildum voru bæjarbúar drepnir meðan þeir voru annað hvort að biðja í mosku eða elda heima fyrir. Kölluðu vitni árásina slátrun. Árásin er sögð hafa átt sér stað fyrir tveimur dögum, en fréttir af henni eru fyrst að berast í dag.

Meðlimir Boko Haram réðu borginni Monguna þangað til nýlega þegar nígeríski herinn rak Boko Haram-liða á braut. Í síðasta mánuði létust allavega 23 í borginni þegar samtökin sprengdu sprengju í fjölmenni þar sem íbúar borgarinnar voru að fagna árangri hersins gegn samtökunum.

Boko Haram samtökin voru stofnuð árið 2002 og eru upphaflega mótfallin vestrænni menntun. Þýðir nafn samtakanna „vestræn menntun er bönnuð“ á hausa tungumálinu. Árið 2009 héldu samtökin í herferð til þess að stofna íslamskt ríki. Helstu svæði sem samtökin hafa verið virk á eru norðaustur hluti Nígeríu, norðurhluti Kamerún, Níger og Tsjad.

Samtökin hafa átt samleið með íslamska ríkinu (ISIS) og í mars á þessu ári var forlega tilkynnt um bandalag milli þeirra og hefur Boko Haram meðal annars notað fána íslamska ríkisins til að einkenna sig.

Boko Haram samtökin hafa undanfarin ár staðið fyrir fjölda árása …
Boko Haram samtökin hafa undanfarin ár staðið fyrir fjölda árása í norðuhluta Nígeríu. Mörg börn hafa misst foreldra sína í átökunum. Myndin er úr St.Theresa's IDP búðunum í Nígeríu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert