Notkun á heróíni jókst um 63%

Heróín olli 8200 dauðsföllum í Bandaríkjunum á síðasta ári.
Heróín olli 8200 dauðsföllum í Bandaríkjunum á síðasta ári. Af Wikipedia

Notkun á heróíni hefur aukist þó nokkuð í Bandaríkjunum síðustu ár og dreift sér til samfélagshópa sem voru áður ekki bendlaðir við eiturlyfjanotkun. Dauðsföllum vegna ofneyslu heróíns hefur jafnframt fjölgað.

Þetta kemur fram í skýrslu bandarískra yfirvalda sem birt var í dag.

Dauðsföll tengd heróíni þrefölduðust á árunum 2002 til 2013. Tíðni kvenna sem notaði heróín tvöfaldaðist á meðan tíðni karla jókst um 50% á sama tíma.

„Notkun á heróíni í Bandaríkjunum jókst almennt um 63% á þessum tíma. Aukningin var í hinum ýmsu samfélagshópum, meðal karla, kvenna, flestra aldurshópa og úr öllum stéttum,“ sagði í skýrslunni. Í henni kemur jafnframt fram að stóran hlut þessarar aukningar má rekja til þeirra sem byrjuðu að nota lyfseðilsskyld verkjalyf en fóru síðan að nota heróín.

„Það sem vekur mesta athygli og áhyggjur er að við erum að sjá heróín dreifa sér um samfélagið í gegnum hópa sem það hefur ekki snert áður,“ sagði Tom Frieden í samtali við NBC en hann vann að skýrslunni.

„Við erum að sjá heróín hafa áhrif á fólk í borgum og sveitum, hvíta, svarta, frá rómönsku Ameríku, í lágstétt og hástétt.“

Ástæður aukningarnar eru margvíslegar. Í fyrsta lagi er eiturlyfjanotkun í Bandaríkjunum að aukast og fleiri nota lyfseðilsskyld verkjalyf. Heróín er ódýrari og aðgengilegri lausn fyrir þá sem háðir eru þessháttar verkjalyfjum.

„Þau eru háð lyfseðilsskyldum verkjalyfjum því það er í grunninn sama efnið og hefur sömu áhrif á heilann og heróín,“ sagði Frieden en heróín kostar um fimm sinnum minna á götunni en lyfseðilsskyld verkjalyf.

Þar að auki er hreinna heróín að koma til Bandaríkjanna nú en áður sem gerir það að verkum að það er auðveldara að taka of stóran skammt. Á árunum 2002 til 2013 fjórfaldaðist tíðni dauðsfalla vegna heróíns í landinu en árið 2013 dóu rúmlega 8200 að völdum heróíns.

Í heildina litið er þó fáir í Bandaríkjunum sem nota heróín en minna en eitt prósent þjóðarinnar misnotar eiturlyfið.

Umfjöllun NBC um skýrslunna í heild sinni má sjá hér.

Fjölgun notenda heróíns má að vissu leyti rekja til fjölgunar …
Fjölgun notenda heróíns má að vissu leyti rekja til fjölgunar meðal þeirra sem misnota lyfseðilsskyld verkjalyf. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert