Herða eftirlit á landamærum Austurríkis

AFP

Stjórnvöld í Austurríki hafa hert eftirlit á landamærum Ungverjalands í kjölfar þess að yfirgefinn flutningabifreið fannst í síðustu viku með lík 71 flóttamanns, þar af fjórum börnum.

Meðal annars er leitað í bílum við landamærin og samkvæmt frétt danska ríkisútvarpsins hafa fundist 200 hælisleitendur frá því eftirlitið hófst síðdegis í gær. Fimm eru í haldi grunaðir um smygl á fólki. Fjórir þeirra eru frá Búlgaríu en einn frá Afganistan.

Eftirlitið er í samstarfi við yfirvöld í Ungverjalandi, Slóvakíu og Þýskalandi. Talsmaður lögreglunnar, Helmut Marban, segir helsta tilganginn með eftirlitinu vera að hafa hendur í hári smyglara en það er umferðarlögregla og sérsveit lögreglu sem annast eftirlitið. 

Lögreglan leitar í öllum flutningabílum og sendibílum auk þess sem leitað er í fjölda fólksbíla. 

Eftirlitið hófst klukkan 18:30 að íslenskum tíma og ekki leið á löngu sem tólf flóttamenn, 9 fullorðnir og þrjú börn, fundust falin í sendibíl sem var á frönskum númeraplötum. Talið er að fólkið sé frá Sýrlandi. Ökumaðurinn var handtekinn.  Í nótt hafa síðan fleiri verið teknir höndum en gríðarlega langar biðraðir hafa myndast við landamærin vegna eftirlitsins.

Frétt DR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert