Mikið mannfall í árás Bandaríkjahers

AFP

Níu starfsmenn sjúkrahúss sem samtökin Læknar án landamæra reka í Kunduz í Afganistan létust í loftárás Bandaríkjahers í nótt. Ekki er vitað hversu margir sjúklingar og aðstandendur þeirra létust í árásinni.

Tugir eru særðir á sjúkrahúsinu en samkvæmt upplýsingum frá samtökunum héldu árásirnar áfram í hálftíma eftir að búið var að láta yfirvöld í Washington og Kabúl vita hvert skotmarkið væri.

Að minnsta kosti 37 eru mjög alvarlega særðir, þar af 19 starfsmenn Lækna án landamæra. Yfir 100 sjúklingar voru á sjúkrahúsinu auk ættingja. Myndir sýna bygginguna alelda en gríðarlegt álag hefur verið á starfsfólk þar eftir að talibanar hófu að herja á borgina á mánudag.

Í yfirlýsingu frá Læknum án landamæra kemur fram að það hafi verið öllum ljóst sem koma að átökunum í Afganistan hvar sjúkrahúsið væri staðsett þar sem þeir voru með hnitin (GSP) skráð. 

Varnarmálaráðuneyti Afganistan hefur lýst yfir sorg sinni yfir árásinni en segir að hópar þungvopnaðra hryðjuverkamanna noti sjúkrahúsbyggingar sem skjól til þess að geta ráðist á hermenn og almenna borgara.

Atlantshafsbandalagið staðfestir að Bandaríkjaher hafi gert loftárás á Kunduz á þessum tíma en að árásinni hafi verið beint gegn uppreisnarmönnum sem ógnuðu hernum. Málið sé í rannsókn.

Frá sjúkrahúsinu í Kunduz
Frá sjúkrahúsinu í Kunduz AFP
Mynd sem sýnir sjúkrahús Medecins Sans Frontieres (MSF) í ljósum …
Mynd sem sýnir sjúkrahús Medecins Sans Frontieres (MSF) í ljósum logum AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert