Horfðu í augu flóttafólks í fjórar mínútur

Börn tóku einnig þátt í rannsókninni. Sambandið sem myndast á …
Börn tóku einnig þátt í rannsókninni. Sambandið sem myndast á örfáum mínútum er einstakt. Skjáskot

Hvað gerist þegar Evrópubúum og flóttafólki er stillt upp og það látið horfast í augu í fjórar mínútur? Niðurstaðan er vægast sagt stórbrotin.

Amnesty International leiddi saman Evrópubúa og flóttamenn, tvo og tvo í einu, bað þá að setjast saman niður og horfast í augu í fjórar mínútur. Myndbandið var tekið upp í Þýskalandi í apríl og er nú dreift á samfélagsmiðlum. Yfirskrift þess er Horfðu handan landamæranna, Look Beyond Borders, og byggir á því að kenningar segja að með því að horfast í augu í aðeins fjórar mínútur myndist sérstök og náin tengsl milli fólks. 

Í raun var um rannsókn að ræða út frá þessari kenningu. Flóttamenn frá Sýrlandi og Sómalíu voru látnir sitja gegnt fólki frá Belgíu, Ítalíu, Þýskalandi, Póllandi og Bretlandi. Niðurstaðan var einstaklega jákvæð.

„Við ákváðum að framkvæma einfalda rannsókn þar sem flóttamen og Evrópubúar sátu á móti hvorir öðrum og horfðust í augu,“ segir Draginja Nadażdin, yfirmaður Amnesty International í Póllandi. „Við tókum þessa einstaklega mannlegu fundi upp og stuttmyndin sem kom út úr þessu talar sínu máli. Þarna kom saman fólk frá ólíkum heimsálfum sem hafði aldrei sést áður og upplifðu mikla tengingu.“

Nadażdin segir að það þurfi hjarta úr steini til að fella ekki tár við að horfa á myndbandið. „Nú þegar heimsbyggðin virðist sundurtætt af aðgreiningu og átökum, þá er það þess virði að sjá heiminn frá sjónarhóli annarra.“ Hún minnir á að flóttafólk sé rétt eins og annað fólk; eigi fjölskyldur, vini, drauma og markmið. „Hvað gerist ef við stöldrum aðeins við og kynnumst þeim?“

Nadażdin bendir svo á að landamæri séu milli landa, ekki fólks. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert