Óstöðugur línudans Tyrklands

Óeirðalögreglumaður utan við Ataturk flugvöllinn í dag.
Óeirðalögreglumaður utan við Ataturk flugvöllinn í dag. AFP

132 hafa látist í hryðjuverkaárásum í Tyrklandi það sem af er ári. Farið er yfir ört versnandi ástand í landinu, sem áður var „kyndilberi stöðugleika“ milli Evrópu og miðausturlanda, á vef BBC.

Mikil spenna ríkir í Tyrklandi þar sem barist er gegn Kúrdum í austanverðu landinu og gegn því að ofbeldi öfgafullra íslamista dreifi úr sér yfir landamæri ríkisins við Sýrland. Tyrkir sjá kúrdneska vígamenn sem sína helstu ógn en hafa nú endurtekið orðið fyrir árás samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki.

41 lést og á þriðja hundrað manns særðust í hryðjuverkaárás á Ataturk-flugvöllinn í Istanbúl í gær. Samtökin hafa ekki lýst árásinni á hendur sér en yfirvöld í Tyrklandi segja hana runna undan rifjum þeirra.

Á síðustu átta mánuðum hafa fimm sprengjuárásir verið gerðar í Istanbúl og fjórar í Ankara. BBC segir það senda Tyrkjum skýr skilaboð um að ekkert svæði sé óhult og að sótt sé að þeim frá ýmsum vígstöðvum. Árásirnar á Ataturk eru einar þær mannskæðustu í landinu á seinni árum en þær beindust bæði gegn Tyrkjum og ferðamönnum.

Árásir í Istanbúl

  • Kúrdneski uppreisnarhópurinn TAK (Kúrdnesku frelsishaukarnir) myrti sjö lögregluþjóna og fjóra óbreytta borgara þann 7. júní þegar hann sprengdi upp litla rútu sem flytja átti óeirðalögreglumenn inn í miðborg Istanbúl.
  • Stærsti uppreisnarhópur Kúrda, PKK (Verkamannaflokkur Kúrdistan), réðst gegn rútu öryggislögregluþjóna í maí.
  • Sjálfsmorðssprengjumaður á vegum samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki myrti þrjá ísraelska ferðamenn og einn Írana á Istiklal-göngugötunni í mars.
  • Tólf þýskir ferðamenn létust þegar sjálfsmorðssprengjumaður sömu samtaka sprengdi sig í loft upp í Sultanahmet-ferðamannasvæðinu í Istanbúl í janúar.

Árásir í Ankara

  • TAK segjast hafa staðið að baki sjálfsmorðssprengjuárás með bifreið á samgöngumiðstöð þann 13. mars þar sem 35 manns létust nálægt dómsmálaráðuneyti Tyrklands og skrifstofum forsætisráðherra.
  • Skammt frá létust 29 þegar ráðist var gegn herrútum þann 17. febrúar. Meðal fórnarlamba var ríkisstarfsfólk sem streymdi út úr nálægum byggingum eftir vinnudaginn. TAK lýsti ábyrgðinni á þeirri árás sér á hendur.
  • Yfir 100 manns létust í tvöfaldri sprengjuárás utan við brautarstöðina í Ankara í október 2015. Vígamönnum samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki var kennt um árásina sem átti sér stað skammt frá höfuðstöðvum leyniþjónustu ríkisins.
Aðstandendur flugfreyju sem lést á Ataturk flugvelli biðja í jarðarför …
Aðstandendur flugfreyju sem lést á Ataturk flugvelli biðja í jarðarför hennar. AFP

Ekki jafn öruggt og áður

Þar til nýlega voru blóðsúthellingar einangraðar við austur- og suðausturhluta landsins, sem er aðallega byggður Kúrdum, þar sem tyrkneski herinn hefur barist gegn PKK í áratugi. Ofbeldi í borgunum beindist almennt gegn skrifstofum flokka og þá helst gegn Lýðræðisflokki fólksins (HDP) sem hallast til vinstri og styður baráttu Kúrda. Marxíski flokkurinn DKHP-C, sem hefur verið bannaður, hefur annað veifið staðið fyrir árásum á lögreglu og vestræn sendiráð.

Tyrkland er ekki lengur sá öruggi staður sem auglýstur var fyrir ferðamenn sem áður flykktust til landsins. Frakkland hefur hvatt borgara sína til að sýna mikla árvekni á ferðamannasvæðum og Bretland hefur varað við því að „hver sem er gæti orðið fyrir árásum og þær haft áhrif á staði sem ferðamenn sækja heim“. Bandarísk yfirvöld hafa sett fram svipaðar viðvaranir.

Samkvæmt BBC eru tyrkneskir borgarar sjálfir orðnir hræddir við að fara í verslunarmiðstöðvar og í opin rými.

Segir Tyrkland vernda vígamenn

Tyrkland samþykkti að taka þátt í aðgerðum á vegum Bandaríkjanna gegn samtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki árið 2014. Samtökin líta á Tyrkland sem hluta af bandalagi innan NATO sem stendur fyrir loftárásum á bækistöðvar þeirra í Sýrlandi og Írak.

Síðustu tvö ár hefur vopnahlé komið að miklu leyti í veg fyrir blóðsúthellingar milli Tyrkja og kúrdneskra uppreisnarmanna sem ríkisstjórn Tyrklands álítur hryðjuverkahóp.

Vopnahléinu lauk í júlí 2015 eftir sprengjuárás sem varð 32 ungum Kúrdum og aðgerðasinnum að bana í borginni Suruc í suðaustri. Árásin virðist hafa verið gerð af vígamanni samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Fórnarlömbin voru á leið til norðurhluta Sýrlands til að taka þátt í uppbyggingu Kobane, bæjar sem vígamenn samtakanna höfðu gjöreyðilagt. BBC segir árásina hafa verið skýrt merki um að átökin í Sýrlandi hefðu náð til Tyrklands.

Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Í kjölfarið tók við alda árása vígamanna og gagnárása hersins og PKK sakaði Tyrkland um að vilja að vígamönnum samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki tækist að koma í veg fyrir að Kúrdar næðu stjórn á landsvæðum í Sýrlandi og í Írak.

Ríkisstjórn Tyrklands setti á útivistarbann í borgum og bæjum í suðausturhluta landsins á meðan kúrdneskra uppreisnarmanna var leitað. Það entist mánuðum saman. Segir BBC að svo virðist sem Tyrkland og PKK séu aftur fallin í sama farið og ríkti fyrir vopnahléið sem komið var á 2013.

Leiðtogi PKK, Cemil Bayik, hefur ásakað forseta Tyrklands, Tayyip Erdogan, um að „vernda Ríki íslams, til að koma í veg fyrir að Kúrdar nái árangri gegn samtökunum“. Í viðtali við BBC í apríl sagðist hann telja að ekki ætti að gera árásir á óbreytta borgara. „Það er hægt að grípa til aðgerða gegn hermönnum; þetta er stríð og þeir eru líka að berjast.“

Ógn við tilveru Tyrklands

Tyrkland hefur lengi verið flækt í átökin í Sýrlandi og Erdogan var á meðal þeirra fyrstu til að hygla uppreisnarhópum í landinu og kalla eftir því að forseta Sýrlands, Bashar al-Assad, væri steypt af stóli.

En Tyrkland hefur síauknar áhyggjur af tilraunum kúrdneskra hópa til að ná stjórn á svæðum í Norður-Sýrlandi. Ríkið óttast uppgang sýrlensk-kúrdneska varaliðsins (YPG) sem og pólitísks arms þess: Lýðræðislega sambandsflokksins (PYD). „Tyrkland finnur mjög alvarlega ógn við tilveru sína frá PYD og PKK,“ segir Burhanettin Duran, framkvæmdastjóri Seta-rannsóknastofnunarinnar sem styður tyrknesku ríkisstjórnina. „Það er mjög traust staðreynd að PYD og PKK er eitt og hið sama.“

Sýrlenskir flóttamenn fylgjast með hermanni í Jórdan.
Sýrlenskir flóttamenn fylgjast með hermanni í Jórdan. AFP

YPG barði samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki á bak aftur við tyrknesku landamærin árið 2015 og tóku þá stjórn yfir um 400 km löngu landsvæði meðfram landamærunum. Þegar Rússland steig inn í átökin í Sýrlandi í september 2015 tóku sýrlenskir Kúrdar höndum saman við sýrlenska stjórnarherinn og rússneska bandamenn þeirra og náðu undir sig landsvæðum norðan við Aleppo. Nú hafa sýrlenskir Kúrdar lýst yfir eigin alríkiskerfi.

Kúrdneskir hópar eru nú við stjórn á meirihluta svæðisins á landamærum Sýrlands og Tyrklands.

„Ríkið er fullt grunsemda gagnvart aðgerðum Kúrda við landamæri okkar, sem ganga gegn hagsmunum þjóðarinnar,“ segir tyrkneski stjórnmálaskýrandinn Fehmi Koru í samtali við BBC.

Hluti af vandanum í Tyrklandi, skrifar BBC, er sá að þrátt fyrir að Bandaríkin líti á PKK sem hryðjuverkahóp, styðji þau við bakið á YPG hinum megin við landamærin.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert