Elsti maður heims 145 ára?

Mbah Gotho segist vera 145 ára gamall.
Mbah Gotho segist vera 145 ára gamall.

Hugsanlegt er að elsti maður heims sé nú fundinn, en fæðingarvottorð hins indónesíska Mbah Gotho bendir til þess að hann sé 145 ára. Á vottorðinu stendur að hann hafi fæðst 31. desember árið 1870, en Gotho segist hafa verið að undirbúa sig fyrir dauðann frá árinu 1992.

„Ég vil deyja,“ segir Gotho, sem lét útbúa legstein fyrir 24 árum. Hann átti tíu systkini sem öll eru látin, auk þess að hafa gift sig fjórum sinnum og eignast börn, en fyrrverandi eiginkonur hans og börnin eru öll látin. 

Stjórnvöld í Indónesíu hafa tekið fæðingarvottorð hans gilt, en ef það reynist ófalsað þýðir það að hann er elsti núlifandi maður heims og frá upphafi. Sá sem bar þann titil síðast var Jeanne Calment, sem lést 122 ára.

Þrátt fyrir staðfestingu indónesískra stjórnvalda hefur ekki verið sannreynt hvort skjölin séu rétt. Ef það verður ekki gert áður en Gotho fellur frá fer hann á lista yfir fólk sem hefur náð mjög háum aldri án staðfastra sannana. Þar er meðal annars að finna James Olofintuyi, sem segist vera 171 árs, og Dhaqabo Ebba, sem segist vera 163 ára. 

Frétt The Independent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert