Sprenging í úthverfi Brussel

AFP

Miklar skemmdir urðu þegar sprengja sprakk við rannsóknarstofnun í afbrotafræði í Brussel í nótt en enginn slasaðist í tilræðinu. Ekki hefur fengið staðfest hvað olli sprengingunni en að sögn talsmanns slökkviliðs borgarinnar, Pierre Meys, er afar ólíklegt að um slys hafi verið að ræða.

Skrifstofa saksóknara í Brussel hefur ekki sent frá sér tilkynningu varðandi sprenginguna við stofnunina (Institute of Criminology) í úthverfi Brussel en í belgískum fjölmiðlum segir að um bílsprengju hafi verið að ræða. Meys segir að sprengingin hafi verið gríðarlega öflug en rúður brotnuðu tugi metra frá þeim stað sem sprengjan sprakk um þrjú í nótt.

Um er að ræða stofnun í afbrotafræði á vegum belgíska réttarkerfisins sem meðal annars annast vísindalegar greiningar í sakamálum og rannsóknarvirkni refsikerfisins í Belgíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert