Fleiri en einn brennuvargur á ferð

Nýhöfn í Kaupmannahöfn.
Nýhöfn í Kaupmannahöfn. AFP

Kveikt var í tveimur bifreiðum í Kaupmannahöfn í nótt og að sögn lögreglu er útilokað að brennuvargurinn sé sá sami í báðum tilvikum. Alls hefur verið kveikt í 28 bifreiðum í Kaupmannahöfn undanfarna daga.

Kveikt var í bílunum um fimmleytið í nótt (um 3 að íslenskum tíma). Annar þeirra stóð við Baldersgade í Nørrebro-hverfinu, þar sem kveikt hefur verið í 24 öðrum bílum undanfarið. Hinn var hins vegar í um 2 km fjarlægð, á Sokkelundsvej í Nordvest-hverfinu. Talsmaður lögreglunnar, Michael Andersen, segir í samtali við Ritzau-fréttastofuna að útilokað sé að sami einstaklingur hafi kveikt í báðum bílunum. Hann vissi ekki hvort kveikt hafi verið í fleiri bílum í nótt, að minnsta kosti höfðu ekki borist tilkynningar um fleiri bílbruna.

Aðfaranótt mánudags var kveikt í tveimur bílum í Kaupmannahöfn, annar þeirra var í Nordvest en hinn var á Amager.

Helgina 19.-21. ágúst var kveikt í 24 bílum í Kaupmannahöfn. 21 árs gamall íbúi á Amager var handtekinn á miðvikudag grunaður um að hafa kveikt í einhverjum þeirra. Enginn hefur verið handtekinn vegna bílbrunanna síðustu tvær nætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert