Ríkislögreglustjóri sakaður um rasisma

Ríkislögreglustjórinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín. Myndin er …
Ríkislögreglustjórinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint. AFP

Roni Alsheich, ríkislögreglustjóri Ísraels, hefur verið harðlega gagnrýndur vegna ummæla sinna þess efnis að það sé „eðlilegt“ að lögreglumenn séu tortryggnari gagnvart Ísraelum af eþíópískum uppruna, og aröbum, en öðrum gyðingum.

Ummælin lét Alsheich falla á ráðstefnu ísraelsku lögmannasamtakanna en hann sagði einnig að rannsóknir víða um heim sýndu að „ungt fólk og innflytjendur“ væru hlutfallslega líklegri til að gerast sekir um afbrot en aðrir íbúar.

Gyðingar af eþíópískum uppruna hafa kvartað undan því að vera mismunaða af hálfu lögreglu og m.a. efnt til mótmæla vegna þessa.

Spurður um ásakanir um harðræði lögregluyfirvalda gegn Eþíópíumönnum, sagði Alsheich:

„Allar afbrotafræðirannsóknir í heiminum benda til þess að innflytjendur séu fremur viðriðnir afbrot en aðrir, og það ætti ekki að koma okkur á óvart.

Að auki sýna rannsóknir að ungt fólk er líklegra til að stunda afbrot. Þegar þessir tvær þættir renna saman, skapast ástand þar sem ákveðið samfélag stundar afbrot.“

Alsheich sagði þetta hafa átt við í öllum tilvikum þegar „öldu“ innflytjenda hefði borið að landamærum Ísrael. Þegar um væri að ræða samfélag sem væri fremur viðriðið afbrot en önnur, og þetta ætti einnig við um araba, þá væri eðlilegt fyrir lögreglumenn að vera tortryggnari en ella gagnvart grunuðum.

Ummæli ríkislögreglustjórans hafa verð gagnrýnd af stjórnmálamönnum og Ísraelum af eþíópískum uppruna.

Fentahun Assefa-Dawit, framkvæmdastjóri samtakanna Tebeka, sem hafa gagnrýnt ofbeldi af hálfu lögreglu, kallaði eftir afsökunarbeiðni og sagði Alsheich í raun hafa stimplað Eþíópíumenn sem glæpamenn og þannig réttlætt mismunum lögreglu gegn þeim og öðrum hópum.

Stjórnarandstöðuleiðtoginn Isaac Herzog sagði Alsheich þurfa að skýra ummæli sín, þar sem það væri ólíðandi að einhver teldi réttlætanlegt að setja ríkisborgara af eþíópískum uppruna, eða araba, undir smásjá.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert