1 látinn og 6 særðir eftir skotárásir í Illinois

Lögregla leitar nú árásarmannanna, sem áttu sér báðar stað snemma …
Lögregla leitar nú árásarmannanna, sem áttu sér báðar stað snemma í morgun að staðartíma. AFP

Einn lést og sex særðust í tveimur skotárásum í nágrenni Háskólans í Illinois í dag. Fréttastofa CNN segir frumrannsókn lögreglu benda til þess að um tvo aðskilda atburði sé að ræða.

Lögregla leitar nú árásarmannanna, en báðar árásirnar áttu sér stað í nágrenni háskólans, sem er í borginni Champaign, snemma í morgun að staðartíma. Fyrri skotárásin átti sér stað eftir að deilur sem hófust í partíi rötuðu út á götur borgarinnar, þar sem kom til slagsmála í framhaldinu með þeim afleiðingum að skotum var hleypt af. Fjórir einstaklingar sem ekki tóku þátt í slagsmálunum særðust.

Farið var með fólkið á næsta sjúkrahús, þar sem einn hinna særðu lést af sárum sínum. Þá slasaðist einn til viðbótar er hann varð fyrir bíl á flótta undan byssuskotunum. Meiðsl hans eru þó sögð minniháttar.

Hálftíma síðar barst lögreglu tilkynning um skotárás í næsta nágrenni. Farið var með einn mann, sem varð fyrir byssuskoti, á sjúkrahús en meiðsl hans eru ekki talin lífshættuleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert