Vilja láta konur vinna lengur

Genfarbúar sleikja septembersólina. Svissneskum konum hefur til þessa staðið til …
Genfarbúar sleikja septembersólina. Svissneskum konum hefur til þessa staðið til boða að fara á eftirlaun ári fyrr en karlkyns kollegum þeirra. Nú kann að verða breyting á. AFP

Svissneskar konur gætu þurft að vinna ári lengur eftir að neðri deild svissneska þingsins samþykkti í dag frumvarpsdrög um að hækka eftirlaunaaldur kvenna í 65 ára aldur.

Mikill meirihluti þingmanna samþykkti frumvarpsdrögin, sem kveða á um  að konur verði að vinna til 65 ára aldurs til að hljóta full eftirlaun, en til þessa hefur konum staðið til boða að fara á eftirlaun ári fyrr en karlkyns kollegum þeirra.

137 af 200 þingmönnum samþykktu frumvarpsdrögin, en 57 sögðu nei, að því er AFP-fréttastofan hefur eftir talskonu svissneska þingsins, sem sagði þingmenn vinstri flokksins hafa lagst gegn tillögunni.

Líkt og fleiri Evrópuríki þá hafa yfirvöld í Sviss ekki farið varhluta af auknu álagi á lífeyriskerfi landsins með hækkandi aldri þjóðarinnar. Árið 2050 má búast við að um þriðjungur svissnesku þjóðarinnar verði kominn á eftirlaun.

Með hækkun eftirlaunaaldurs kvenna um ár getur svissneska ríkið geti sparað um 1,2 milljarð svissneskra franka í lífeyriskostnað til ársins 2030, að því er innanríkisráðherrann Alain Berset sagði þingheimi áður en gengið var til atkvæðagreiðslu.

Yvonne Feri, þingmaður Sósíalistaflokksins, varaði við því í umræðum um frumvarpið að sparnaði yrði náð fram á kostnað kvenna.   Benti hún m.a. á að konur fengju ekki sömu eftirlaun og karlar vegna launamismunar og þess að fleiri konur vinni hlutastörf.

Sebastian Frehner, þingmaður Flokks fólksins, sem kaus með tillögunni, sagði hins vegar að þar sem konur lifi lengur en karlar, þá ættu þær í raun að vinna enn lengur svo fullrar sanngirni væri gætt.

AFP segir hins vegar geta tekið nokkur ár fyrir frumvarpið að öðlast gildi. Lagafrumvörp fari í umræðu aftur og aftur hjá báðum deildum svissneska þingsins, þar til þær eru orðnar sammála um nákvæmt orðalag. Aukinheldur megi búast við að málið verði tekið til þjóðaratkvæðagreiðslu á seinni stigum vegna þess hve umdeilt það er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert